144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[16:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Maður er hálfslegin að sitja hér í þingsal og hlusta á hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem stýrði utanríkismálum þjóðarinnar á síðasta kjörtímabili. Hér fer hann enn á ný fram með staðreyndir sem eru hálfsannleikur. Það er hreint með ólíkindum að hlusta á þingmanninn halda því fram að undanþágur séu í boði hjá Evrópusambandinu.

Ég minni þingmanninn á myndband sem er til á netinu þar sem Stefan Füle raunverulega hirtir þingmanninn á sínum tíma þegar hann ætlaði að nota það til heimabrúks að hægt væri að fá undanþágur, þá leiðrétti stækkunarstjórinn það hratt og vel. Ég held að hv. þm. Össur Skarphéðinsson ætti að kíkja á þetta myndband.

Mig langar að spyrja þingmanninn að því hvort hann vilji ekki fara í örfáum orðum yfir það sem gerðist í mars 2011 þegar ekki var hægt að opna rýniskýrslu um (Forseti hringir.) sjávarútveg og þar með var umsóknin dauð þó að látið hafi verið líta út fyrir annað hér á landi.