144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[19:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég er ekki algjörlega klár á því hv. hv. þingmaður átti við. Það var engin þörf á því á þeim tíma að halda slíkar ræður yfir mönnum eins og mér. Ég stóð fullkomlega við það sem ég sagði fyrir kosningar og reyndi af bestu getu að efna það eftir kosningar. Formaður Sjálfstæðisflokksins lýsti þessu yfir. Hann lýsti þessu síðast yfir. Það er það merkilega í allri þessari atburðarás. Síðast lýsti hann því yfir í grein í Morgunblaðinu í ágúst bak kosningum. Það finnst mér ákaflega merkilegt.

Ég rifja það líka upp að forustumenn ríkisstjórnar lögðu upp feril og sögðu hvenær ætti að taka ákvörðun og hana ætti að taka hér, en hún var aldrei tekin hér, því ferli var aldrei lokið eins og hv. þingmaður veit. Það mætti líka kalla svik. Það skiptir ekki máli á þessu stigi.

Ég ætla að lesa hér fyrir hv. þingmanni orð eins af forustumönnum hans:

„Vegna þess hversu mikið ágreiningsmál þetta er, milli flokka, milli þjóðarinnar, milli landsbyggðar og höfuðborgar, þetta fer í gegn um fjölskyldur, eina leiðin til að komast að niðurstöðu um það hvert skuli halda núna, er að spyrja þjóðina.“

(Forseti hringir.) Man hv. þingmaður hver það var sem sagði þetta?