144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[21:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti Ég kem hér í aðra ræðu mína til þess að koma að efnislegum atriðum um ESB og eins til að ítreka það sem mikilvægast er við þetta allt saman og það er lýðræðið sjálft. Mig langar til þess að rifja upp aðdragandann að því að við sitjum hér og stöndum og ræðum þetta mál.

Á síðasta kjörtímabili var sótt um aðild að Evrópusambandinu. Gott og vel. Síðan voru alþingiskosningar 2013. Þá lofuðu stjórnarflokkarnir tveir, Sjálfstæðisflokkurinn þó með meira afgerandi hætti, að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður við ESB. Það sem vakti strax athygli í kosningabaráttunni var hvernig menn orðuðu það loforð. Þeir orðuðu það sérstaklega þannig að hægt væri að túlka það á tvo vegu. Þegar menn voru spurðir beint hvort þeir ætluðu sér að halda þjóðaratkvæðagreiðslu sögðu þeir já, Bjarni Benediktsson, hæstv. fjármálaráðherra, sagði já, eins og frægt er orðið, og sömu orðræðu var að heyra frá Framsóknarflokknum þegar menn voru spurðir beint.

Kjósendur verða að kjósa til Alþingis út frá því sem flokkarnir boða fyrir kosningar. Það er einn af göllum fulltrúalýðræðisins. Af því leiðir að við eigum að líta á það sem stórmál þegar þau loforð eru svikin, sérstaklega þegar það gerist vegna þess að menn vilja ekki gera það sem þeir lofuðu frekar en ef þeir geta það ekki, sem er kannski önnur spurning, þ.e. ef þeim mistekst að gera eitthvað sem þá langar að gera. Það er þá alla vega skiljanlegra en þegar þeir sýna hinu háa Alþingi og þjóðinni fingurinn, ef svo má að orði komast.

Það kemur svo sem engum á óvart að stjórnmálamenn svíki loforð þannig að það kom kannski engum sérstaklega á óvart, alla vega ekki þeim sem hér stendur, að ríkisstjórnin skyldi koma fram með tillögu án þess að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Gott og vel, maður er svo sem vanur því. Það er engin réttlæting í því en maður er svo sem vanur því að yfirvöld vanvirði lýðræðið, Alþingi og þjóðina sérstaklega. Nema hvað, svo kemst málið ekki í gegnum Alþingi að því er virðist, festist í utanríkismálanefnd, og auðvitað kennir ríkisstjórnin málþófinu um. En jafnvel þó að menn kalli það málþóf, og ég undirstrika að við erum að tala um Evrópusambandið, eitt af stærri málum sem rædd hafa verið á þessu þingi, er eðlilegt að um það séu mjög ítarlegar umræður.

Sú orðræða að þinginu sé ekki treystandi til þess að taka ákvarðanir um mál á borð við aðildarviðræður við ESB er aðför að þingræðinu. Mér finnst svo mikilvægt í þessari umræðu að við gleymum því ekki hvað við erum að tala um. Við erum ekki bara að tala um Evrópusambandið, við erum að tala um lýðræðið, við erum að tala um þingræðið. Við erum ekki einu sinni að tala um hina meintu brjálæðislegu drauma pírata um beint lýðræði eða þjóðaratkvæðagreiðslu á hverju ári eða þingræðið yfir höfuð. Og það er alvarlegra en tárum taki.

Mér er það ljóst að ég hef ekki tíma til að taka efnislega umræðu um Evrópusambandið enda er það kannski aukaatriði miðað við spurninguna um hvort við eigum að hafa lýðræði eða ekki, en það stingur mig samt sérstaklega þegar hæstv. ríkisstjórn eða hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans koma hingað og rökstyðja andstöðu sína við Evrópusambandið með því að að við séum ekki sjálfstæð þjóð ef við göngum í það. Erum við sjálfstæð þjóð ef kosningaloforðin eru svikin, ef kosningaloforð um þjóðaratkvæðagreiðslur eru svikin og Alþingi er sniðgengið ef hæstv. ríkisstjórn finnst Alþingi taka of langan tíma í að ræða málin? Hvaða sjálfstæði ætlum við að verja þá? Mér er spurn.

Mig langaði auk þess að ræða tengslin við EES og þá staðreynd að það liggur alltaf á að taka hér fyrir mál frá EES. Menn virðast ekki sjá mótsögnina í því. Ég stoppa hér tímans vegna.