144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[23:10]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nefnilega dálítið undarleg staða sem við erum í. Það sem mér þykir kannski verst í þessu öllu saman er að menn eru að taka ákvörðun um að loka dyrum, loka dyrum að framtíðarmöguleikum fyrir okkur í að taka upp gjaldmiðil sem virkar fyrir okkur í alþjóðaviðskiptum, taka upp gjaldmiðil sem gæti mögulega fært okkur aukna velsæld og þá ekki síst almenningi í landinu sem gæti fengið lánskjör sem væru á pari við það sem best gerist í kringum okkur o.s.frv. Þetta er gert án þess að koma með neinn annan valkost. Það væri kannski hægt að ræða það við fólk ef menn legðu fram valkost. Hvaða framtíð ætlar ríkisstjórnin að bjóða okkur í staðinn? Þessi valkostur hefur aldrei verið lagður fram. Það er það sem mér finnst líka svo erfitt. Mér finnst stefið hjá ríkisstjórninni hafa verið að rífa niður og draga til baka allt sem fyrri ríkisstjórn gerði án þess að huga að því að gefa okkur (Forseti hringir.) einhverja innsýn inn í framtíð hér á landi sem er betri en það sem er í boði í dag.