144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[23:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vonandi gefst okkur tækifæri til að ræða þetta betur við seinni umræðu þessa máls eða hugsanlega á öðrum vettvangi. Ég hefði mikinn áhuga á því vegna þess að því meira sem ég grefst fyrir um þetta aðlögunarferli því minni áhyggjur hef ég af því.

Ef um er að ræða einhverjar breytingar eins og það — ég giska bara út í bláinn, ég veit hreinlega ekki betur — að menn séu að tala um einhverja staðla eða því um líkt, þá finnst mér þetta hreinlega engu máli skipta nema þá að það hljóti að vera til bóta. Við erum væntanlega glöð yfir að hafa aðlagast Evrópu að því leyti að við notum sömu raftengi og við notum sömu netsnúrur, við notum TCP þegar við tölum um internetið. Það er jákvætt. Það er jákvætt að við séum aðlöguð þegar kemur að stöðlum og þá mundum við vona að heimurinn væri aðlagaður, þ.e. ef breytingarnar snúast um staðla og samskiptahæfni og samhæfni stofnana eða verkferla.

Með hliðsjón af því að ekkert af þessum ferlum og ekkert af þessum stofnunum, sem hafa verið þáttur af öllu þessu ferli, hafa krafist lagabreytinga þá skil ég hreinlega ekki hvað á að vera svona ógurlegt við þá meintu aðlögun sem á að hafa átt sér stað. Vissulega göngum við gegnum aðlögun í gegnum EES, við höfum rætt það hér heilmikið. En sömuleiðis þegar við tölum um að það hafi verið undirbúningur að lagabreytingum — ég er að undirbúa lagabreytingar hérna sem ég get alveg lofað hv. þingmanni að fullt af þingmönnum hér á bæ muni ekki lítast nokkurn skapaðan hlut á. Ég er að undirbúa breytingu á stjórnarskrá líka. Ég er að undirbúa alls konar lagabreytingar og sömuleiðis þingflokkur minn og aðrir þingmenn hér. Það eitt og sér er ekki aðlögun. Það eitt og sér er bara undirbúningur að sjálfsögðu í þokkabót.

Eins og ég segi, því meira sem ég grefst fyrir um þetta því rólegri verð ég með það og ég læt það bíða betri tíma að karpa við hv. þingmann um þýðingu orðsins.