144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Samtök sem kalla sig Hálendishópinn og samanstanda af Landvernd, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Ferðafélagi Íslands, Framtíðarlandinu og fleiri samtökum bjóða til hálendishátíðar í Háskólabíói annað kvöld. Þar eru allir velkomnir og frítt inn. Eru þessi samtök að vekja athygli á hálendi okkar og hversu mikil þjóðargersemi það er. Því miður eru ekki allir meðvitaðir um hvers virði ósnortið hálendi er og stofnanir ríkisins eins og Landsnet og Vegagerðin hafa verið með mikinn þrýsting á að leggja þar samhliða línur og veg sem mundu brjóta upp hálendið og eyðileggja ásýnd þess. Við þekkjum vinnu meiri hluta atvinnuveganefndar við að taka út fyrir sviga og fram hjá vinnu við rammalöggjöfina virkjunarkosti á hálendinu sem eru á mörkum Vatnajökulsþjóðgarðs, eins og Skrokköldu. Allt þetta er skemmdarstarfsemi á hálendi Íslands sem við Íslendingar eigum að kunna að meta og varðveita því að við bætum ekki úr því eftir á. Hálendið er á sama stalli og margar aðrar þjóðargersemar erlendis sem fjöldi ferðamanna skoðar og nýtur.

Við eigum að hafa þroska til að standa vörð um þessa gersemi okkar. Sem betur fer er vitundarvakning í landinu, almenningur í landinu er að vakna, en vitundarvakningin þarf að ná (Forseti hringir.) til margra inni á Alþingi og stofnana ríkisins því að það er skömm að því hve mikil barátta er fyrir því að eyðileggja hálendið.