144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

beiðni um fund í þingskapanefnd.

[15:36]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að nefna að undir liðnum um fundarstjórn forseta hefur mikið verið talað um hvers konar vandræðum við erum í varðandi tíma, skipulag o.s.frv. Mig langar að biðja hæstv. varaforseta að minna forseta þingsins á að 4. febrúar á þessu ári lofaði hann að halda fund í þingskapanefnd, sem var síðan gert fljótlega, og á þeim fundi var talað um að við þyrftum að funda meira í þingskapanefnd og mundum funda þar ótt og títt sem hefur ekki orðið. Hvers vegna skiptir þetta máli í þessu samhengi? Jú, vegna þess að þingsköpin eru leikreglurnar, leikramminn, lögin um leikreglurnar um það hvernig við störfum hérna í þinginu. Og þau eru ekki nógu góð en það eru alls konar hugmyndir um hvernig er hægt að bæta þau. Það væri hægt að auka sjálfstæði forseta. Hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir kom inn á að forsetinn er í rauninni afleggjari af stjórnarherrunum. Það væri hægt að auka sjálfstæði forseta þingsins, það er eitt sem hefur komist til tals. Annað sem væri hægt er að færa vald til minni hlutans til að geta vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og í Danmörku, sem þýðir að fleiri þyrftu að koma að málum og það væri meiri samstaða (Forseti hringir.) um þau mál. Ég kalla eftir því að þingforseti boði til fundar hið fyrsta í þingskapanefnd.