144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég teldi það algjört hneyksli ef við færum ekki að lögum í þessum sal. Hér er farið að lögum. (Gripið fram í.) Hér koma mjög ólík sjónarmið fram, hingað kemur hv. þingmaður og fullyrðir að hluti af útgerðinni hafi þurft að kosta gríðarlegu til. Annar þingmaður fyrr í umræðunni hélt því fram að menn hefðu ekki þurft að kosta neinu til. (Gripið fram í.) Það eru mjög ólíkir hagsmunir í útgerð milli stórra og smárra. Það er mjög mikilvægt og ég hef lagt á það ríka áherslu sem sjávarútvegsráðherra í öllum þeim frumvörpum og þeirri umræðu sem ég hef átt í salnum við þingmenn að við þurfum að tryggja fjölbreyttan sjávarútveg í landinu. Við þurfum að tryggja þjóðhagslega arðbæran sjávarútveg í landinu. Það er hluti af því að menn hafi fyrirsjáanleika. Við þurfum að tryggja þjóðinni eðlilega hlutdeild í eign sinni. Það erum við að gera annars vegar með veiðigjöldum og hins vegar hér, sem er reyndar hluti af veiðigjaldafrumvarpinu en kemur fram í þessu frumvarpi, að leggja viðbótargjald á makrílinn. Og ég veit (Forseti hringir.) að hv. þingmaður veit það líka að sumir í smábátageiranum telja þetta gjald allt of hátt.