144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

698. mál
[18:32]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka ráðherra sérstaklega þetta frumvarp. Ég fagna því og er stoltur af því að þessir tveir flokkar skuli standa við það kosningaloforð sitt að jafna að fullu húshitunarkostnað á landinu.

Ef ég vitna í frumvarpið segir þar að með upptöku jöfnunargjalds á raforku, samanber lög um breytingu á lögum nr. 98/2004, sem samþykkt voru á Alþingi 3. mars 2015, sé tryggð full jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku til almennra nota í dreifbýli og þéttbýli frá og með árinu 2016. Eftir stendur að tryggja að flutningur og dreifing á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði niðurgreidd að fullu. Með þessu frumvarpi er það lagt til. Ég fagna því. Þetta er glæsilegt frumvarp með fallegum myndum af landinu í lit og góðum töflum og línuritum.

Enginn vafi leikur á því að hinn mikli húshitunarkostnaður sem um 10% landsmanna búa við hefur stuðlað að búseturöskun og veikt viðkomandi samfélög. Þessi þungi kostnaðarliður er í raun ávísun á lakari lífskjör og letur fólk mjög til búsetu á þessum svæðum. Þetta byggðamál snýst ekki um stöðu landsbyggðar gagnvart höfuðborgarsvæðinu, því að víða um land eru starfræktar ódýrar jarðvarmaveitur. Það snýst meira um jöfnun búsetuskilyrða almennt og jöfnun á möguleikum sveitarfélaga til að vaxa og dafna, eins og segir hér.

Líkt og í ljósleiðaramálunum, þar sem við stefnum að því að jafna skilyrði hjá fólki hvar sem það býr, ætlum við okkur með bæði þessu frumvarpi um húshitun og því sem við ætlum að gera í fjarskiptamálunum að jafna möguleika fólks. Í frumvarpinu segir líka: „Samtals er því áætlað að hækkunarþörf niðurgreiðslna til húshitunar samkvæmt frumvarpinu verði um 215 millj. kr. Gert er ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins komi til framkvæmda 1. janúar 2016.“

Enn fremur ætla ég að fagna því sem stendur hérna í umsögn frá fjármálaráðuneytinu, að samkvæmt núgildandi lögum hafi umfang niðurgreiðslna til húshitunar hingað til ráðist af því hversu mikið fjármagn Alþingi hefur veitt til þessa málaflokks í fjárlögum hverju sinni.

Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að skýrt verði kveðið á um skyldur ríkisins til að niðurgreiða húshitun en ekki settur fyrirvari um það svigrúm sem heimildir fjárlaga veiti þannig að niðurgreiðslukerfið verði sjálfvirkt með þeim hætti að öllum kostnaðarbreytingum í raforkudreifingu verði mætt sjálfvirkt án þess að taka þurfi sérstaka ákvörðun um fjárheimildina með fjárlögum. Við þurfum því ekki að treysta því að fjárlaganefnd komi með fjármuni. Því ber að fagna.

Að lokum fagna ég frumvarpinu aftur og er stoltur af því að þessir tveir flokkar skuli standa við enn eitt kosningaloforðið.