144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[11:25]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skýrslur hafa einmitt sýnt að þau skilyrði sem íslenskur sjávarútvegur býr við, sem eru rík samkeppnisskilyrði, hann keppir á alþjóðlegum samkeppnismörkuðum, hafa leitt til þess að á Íslandi er ásættanleg framleiðni í sjávarútvegi öfugt við aðrar greinar. Ég er sammála hv. þingmanni um að við ættum að horfa til þessa, að það er einmitt markaðsþátturinn í rekstrarumhverfi sjávarútvegsins sem skilar góðum arði og ásættanlegri niðurstöðu fyrir samfélagið. Förum lengra með það. Það er alveg rétt að við, ég og hv. þingmaður, getum farið saman í útgerð og keypt kvóta mögulega á eftir ef við ættum pening, ég á hann alla vega ekki. En þá þurfum við að kaupa af þeim sem fengið hefur úthlutað frá ríkinu.

Ég segi: Byrjum á ríkinu, seljum kvótann þaðan. Og nú erum við með má segja nýjan stofn, nýja auðlind, ný verðmæti. Byrjum þá á því, úthlutum ekki kvótanum til þeirra sem geta síðan selt hann á frjálsum markaði, heldur seljum hann frá ríkinu. Til þess að mæta ýmsum laglegum sjónarmiðum getum við gert það þannig að við (Forseti hringir.) tröppum það til dæmis niður, við getum selt 1/6 núna á næsta ári og svo 1/6 á þarnæsta þangað til við erum komin að fullu í uppboðskerfi, (Forseti hringir.) markaðslausn í sjávarútvegi (Forseti hringir.) sem skilar hámarksarði.

(Forseti (EKG): Forseti vill taka fram að það er einhver bilun í tímamælingu í ræðustól þingsins en forseti reynir eftir föngum að fylgjast með tímamælingu.)