144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[12:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Ég er að velta því fyrir mér hvernig ég eigi að skilja svar hv. þingmanns. Hún segir að hún sé yfir höfuð á móti þessari kvótasetningu. Hún vill að markaðslögmálin ráði, eins og ég vil líka.

Get ég dregið þá ályktun af því að hún telji að allir eigi að keppa um makrílkvótann á sama markaði? Ég spyr vegna þess að mér fannst það vera annað sem hún svaraði hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur.

Ég horfi á þetta þannig, og sleppi þá öllum byggðatengingum, við látum þær liggja á milli hluta, að á sínum tíma voru smábátar að slást fyrir því að fá að veiða sem mest af þorski, eðlilega. Árið 1994 voru þeir með 4,8% af þorskaflanum. Núna er hann kominn upp í 18–20%. Ef það er þannig að smábátar veiða í dag 18–20% af þorskaflanum og við setjum hér einhverjar leikreglur, sem að minnsta kosti hv. þm. Jón Gunnarsson segir að eigi að byggja á því sem fyrir er, er þá ekki sanngjarnt að smábátarnir eigi kost á því að fá sömu hlutdeild af makrílnum og af þorskinum? Þetta er mitt viðhorf. Hvað segir hv. þingmaður gagnvart því?