144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

heimildir lögreglu til símhlerana.

[13:48]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Sú umræða sem hér birtist er ágætisvitnisburður um það hvernig nokkurra ára samtal getur leitt samfélag að mjög einsleitri niðurstöðu. Mér heyrist að í þessum sal séu skoðanir manna mjög líkar á því að nást þurfi ákveðið jafnvægi á milli hagsmuna einstaklingsins og frelsis hans til að hafa sín mál fyrir sig og svo heimildar yfirvalda til að ganga úr skugga um að ekki sé verið að brjóta þau lög og þær reglur sem við höfum ákveðið að búa við.

Ég hef sjálfur verið leitandi í þessum efnum og tók þátt í því á síðasta kjörtímabili að flytja þingsályktunartillögu ásamt nokkrum þingmönnum sem einmitt gekk út á það að skoða hvaða heimildir væru til staðar í þessum efnum í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Síðan höfum við þroskað þessa umræðu og ég held að niðurstaðan sé að leiða okkur hingað á þessar brautir.

Við höfum náð að forgangsraða markmiðunum. Maður áttar sig á því að þau eru mörg og ólík og í mínum huga skiptir mestu máli að vernda rétt einstaklingsins til að hafa sína hluti í friði og að hleranir og forvirkar rannsóknarheimildir séu það mikið inngrip að það þurfi að vera gríðarlega skýrar reglur og öflugt eftirlit þegar menn beita slíkum aðferðum.