144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[15:42]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að segja: Jú auðvitað. Það er í raun forsenda fyrir því að hægt sé að koma inn með þetta sex ára ákvæði. Samt mundi það ekkert nægja mér að hafa það í stjórnarskrá að auðlindin væri klárlega í eigu þjóðarinnar. Það er ekki nóg, það þarf líka að útdeila þessum gæðum, þessari auðlind. Það þarf að útdeila henni á markaðsforsendum en ekki á hagsmunaforsendum flokka eða fólks sem situr á Alþingi í dag. Ég er ekki talsmaður óhefts markaðar, en ég er talsmaður markaðar með eftirliti og reglum, þar sem einhverjar reglur gilda. Í andsvari mínu við hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur hér áðan segi ég: Það er hægt að nota markaðsöflin en setja þeim reglur og setja þau í hólf þannig að það sé ekki óheftur markaður.

Auðvitað þarf að fá auðlindaákvæði í stjórnarskrána og hefði átt að vera búið að gera það fyrir löngu. En ekki eru allir á eitt sáttir um það hvernig það auðlindaákvæði ætti að líta út. Auðlindaákvæðið þarf að uppfylla ákveðnar kröfur hjá mér, það getur verið verra að hafa vont ákvæði inni en ekki, verr af stað farið en heima setið.