144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[17:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld. Ég get byrjað á því að taka undir það með hv. þm. Jóni Gunnarssyni, sem ég geri ekki alla jafna, að þetta mál komi ansi seint fram. Við höfum því miður ekki mikinn tíma ef starfsáætlun þingsins á að standast til að afgreiða svona stórt mál með öllum hinum sem bíða afgreiðslu. Það má því alveg brýna ráðherra til að koma með stór mál tímanlega svo að mál sem þetta fái sem besta umfjöllun og nægur tími gefist til að fara ofan í saumana á umsögnum og til vinnu í nefndinni, svo hægt sé að taka upplýsta ákvörðun um framhaldið.

Í andsvari áðan við hæstv. ráðherra ræddi ráðherra um þrepaskiptingu og að ekki væri hægt að horfa til þess og tala um að þetta væri orðið eitt veiðigjald í dag í staðinn fyrir það almenna og sérstaka. Ég held að það sé mikill galli á þessu frumvarpi að hverfa frá því að hafa almenna veiðigjaldið, sem voru rúmar 9 kr., þannig að það rísi undir þeim útgjöldum sem því er ætlað að gera hvað varðar kostnað kringum greinina og annað því um líkt. Ég get ekki tekið undir að betra sé að fara þá skattlagningarleið sem í raun er verið að fara og með því farið frá þeirri hugmyndafræði sem var og er í lögum um veiðigjöld í dag. Ég tel að mun auðveldara verði fyrir greinina að fela í rekstri sínum ýmsan aukakostnað sem gerir það að verkum að hreinn hagnaður verður minni þegar upp er staðið, þannig lækka veiðigjöld sérstaklega á þeim sem geta smurt ýmsan kostnað á áður en hreinn hagnaður er reiknaður.

Ég get tekið undir að þarna séu á ferðinni samtímagreiðslur og það sé af hinu góða. Það stóð í mönnum að fá samkeyrsluaðila skattsins og Fiskistofu og Hagstofu á sínum tíma þegar verið var að basla við að koma fyrri lögum um veiðigjöld í gegn, en nú virðist skatturinn eiga þátt í að auðvelda það að hægt sé að hafa samtímagreiðslurnar byggðar á upplýsingum um hvert og eitt fyrirtæki, sem reyndar kemur ekki til kastanna alveg strax heldur í framtíðinni. Þarna er líka tekinn til greina hagnaðurinn í fiskvinnslunni og ég tel réttlætanlegt að hafa hann með þegar þetta er allt metið. Ég veit að komið hefur upp mikil gagnrýni frá sjómönnum á makrílveiðarnar þar sem útgerð er með bæði veiðar og vinnslu, skiptaverð til sjómanna sé brenglað þar sem útgerðin selji sjálfri sér á lægra verði og taki svo út hagnaðinn í vinnslunni. Ég held því að rétt sé að hafa vinnsluna inni í þessu módeli.

Ég tel líka að horfa verði til ólíkra útgerðarflokka. Hæstv. ráðherra svaraði því til í andsvari áðan að hann mundi endurskoða það sem hér kemur fram, að raunverulega lækka þá afslætti sem voru inni og höfðu lækkað áður en þessi ríkisstjórn tók við. Ég held að hægt sé að mæta minni útgerðunum á ýmsan hátt, hvort sem það er með þrepaskiptingu af gjaldi eða ákveðnu frítekjumarki sem minni útgerðir mundi muna gífurlega um. Ég vona að ráðherra sýni í verki þá ætlun sína að koma til móts við þær útgerðir sem þurfa í alvöru á því að halda að veiðigjöldin verði endurskoðuð, stærstu útgerðir þurfa auðvitað ekkert á því að halda. Sjávarútvegsfyrirtæki hafa verið í umræðunni vegna mikilla arðgreiðslna, eins og HB Grandi hf. þar sem menn greiða sér tvöfalt meiri arð en þeir borga í veiðigjöld. Ég tel gersamlega út í hött að fyrirtækin hagi sér þannig og þurfi ekki að greiða meira af þessari sameiginlegu auðlind en þau gera, miðað við það sem þau greiða til hluthafa sinna. Þetta er ekki ásættanlegt.

Í ár greiðir útgerðin rúma 9 milljarða í veiðigjöld, sem á eflaust eftir að verða meira vegna þess að það eru auknar veiðar í loðnu. Sé horft til þess að miðað er við að veiðigjöldin skili 10,8 milljörðum á næsta fiskveiðiári er það ekki mikil breyting frá síðasta ári þegar upp er staðið. Ég tel að við getum náð meiri arði frá sjávarútveginum til þjóðarinnar en ég tel líka að horfa eigi í það hvernig veiðigjöldunum er skipt. Miðað við reynsluna tel ég að horfa verði enn frekar til mismunandi útgerðarforma og koma til móts við þau. Þegar upp er staðið getur greinin í heild greitt meira en ákveðnir hlutar hennar rísa ekki undir veiðigjöldunum eins og þau eru í dag. Þannig er veruleikinn. Menn hafa talað mikið fyrir fölbreyttu útgerðarformi sem hefur ákveðin og mikil margfeldiáhrif á sínum svæðum og skipta miklu máli og ég tel að við verðum að horfa til þeirra, enda hef ég alltaf verið meiri talsmaður grundvallarbreytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu sem slíku en þess að veiðigjöldin leysi ágreining. Ég mun aldrei skrifa upp á að veiðigjöld, hversu há sem þau eru, leysi ágreining um óréttlátt kvótakerfi. Ég tel að skera þurfi upp sjálft kvótakerfið og síðan sé það sem þjóðin eigi að fá í auðlindarentu viðfangsefnið og að horfa eigi til ólíkra útgerðarþátta og getu greinarinnar hverju sinni. Einnig þurfi að horfa á sjávarbyggðir vítt og breitt um landið og til þess hver geta þeirra samfélaga er í raun til að standa undir auðlindarentunni og hvernig hún skilar sér út aftur til sjávarbyggðanna. Allt er þetta eitthvað sem menn rökræða eðlilega um og horfa til og mörgum hefur ekki þótt auðlindarentan skila sér nægilega vel út aftur til samfélaganna. Það er líka með það eins og margt annað að veldur hver á heldur og það er í höndum stjórnmálamanna hverju sinni hvernig þeir útdeila skatttekjum og hverjir njóta.

Ég tel að sjálft kvótakerfið sé viðfangsefni sem við þurfum að glíma við, að ná inn hærri auðlindarentu, hún er viðfangsefnið hverju sinni eftir hag greinarinnar. Auðvitað væri mjög gott ef við gætum komið okkur niður á auðlindarentuhugsun í þessu frumvarpi, með þeim fyrirvara að skoða þurfi sérstaklega og mæta viðhorfum minni útgerða sem eiga erfitt með að greiða það sama á hvert kíló af þorski og stórútgerðin. Þannig er veruleikinn.

Ef ég kem aðeins að makrílgjaldinu, 10 kr., vekur það margar spurningar. Makríllinn er í dag í 0,41% í þorskígildisstuðli og sé horft á varanlegt verð á kvóta, sem hefur farið frá 2.400 kr. í 3.000 kr., og ef varanlegt verð á makríl er þetta hlutfall af því, eru 10 kr. ansi lítið. Á undanförnum árum hafa stórar útgerðir eins og Samherji o.fl. leigt til að mynda Færeyingum á 100 kr. kílóið. Auðvitað er hægt að segja að það sé tímabundið, að menn rísi ekki undir því að öllu jöfnu, en Grænlendingar greiða í dag 20 kr. á kílóið, eða þær útgerðir sem nýta grænlenskan makrílkvóta, svo að í þeim samanburði finnst mér 10 kr. ekki ganga upp. Ég hef áður komið inn á í máli mínu af hverju ekki sé miðað við aflaverðmæti og tekið eitthvert hlutfall af aflaverðmætinu í makrílnum og þannig komið til móts við það að vissulega hefur verðið verið að lækka hjá útgerðum varðandi sölu á makríl, eins og á síðasta ári, það eru sveiflur þarna. Á tímabili fékkst hærra verð hjá smábátum fyrir makríl en hjá stórútgerðinni og til að taka þær sveiflur held ég að rétt væri að hafa hlutfall af aflaverðmæti upp úr sjó og kvótasetja ekki makrílinn, eins og við höfum verið að ræða hér í dag.

Heilt yfir stöndum við frammi fyrir því að í dag má skipta sjávarbyggðum á Íslandi í þrjá flokka. Það eru þær sjávarbyggðir sem hafa stórar og miklar uppsjávarútgerðir í sveitarfélögum sínum og þar er góður gangur og ekki yfir neinu að kvarta. Þær útgerðir rísa vel undir veiðigjöldum og hærri veiðigjöldum en þarna kemur fram. Svo eru það miðlungsútgerðirnar, kannski fjölskyldufyrirtæki, þriðji flokkurinn, þær eru í basli með að ná endum saman og eiga mjög erfitt. Svo eru það minnstu útgerðirnar sem eru á mörgum þeirra staða sem flokkast undir brothættar byggðir, búið er að keyra þær alveg í kaf og maður veit aldrei hvernig gengur að halda þeim gangandi. (Forseti hringir.) Ég tala fyrir þrepaskiptu veiðigjaldi en stærstu útgerðirnar geta vissulega greitt meira en þær gera í dag.