144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[18:50]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú er kannski sá sem hér talar ekki alveg jafn handgenginn markaðnum og sumir aðrir hv. þingmenn. Hann er görótt tæki líka, og þá verða menn einnig að vera tilbúnir til að taka afleiðingum þess að beita honum sem tæki til að finna verðmiðann á eitthvað svona lagað. Þá koma upp ýmis önnur álitamál eins og þau hvort sá sem borgi best fái og jafnvel bara allt sem hann vill kaupa og hvað þýðir það? Látum við þá markaðinn bara um það? Hvernig verður þá með samþjöppun og annað því um líkt?

Auðvitað er hægt að hafa það stýrt í einhverjum mæli, og ég hef verið opinn fyrir hugmyndum um að fara t.d. blandaða leið í þessum efnum. Það má segja að þau frumvörp sem við lögðum til á sínum tíma hafi verið það. Við ætluðum að reyna að koma á virkum leigumarkaði með veiðiheimildir á vegum ríkisins sjálfs, og um leið og sá markaður væri orðinn nægjanlega djúpur og eðlileg verðmyndun kæmi fram fengjum við mjög gagnleg skilaboð úr greininni um hvers virði auðlindin raunverulega er. Það væri vel hægt að hugsa sér að menn hefðu að einhverju leyti til hliðsjónar mælingu sem þeir fengju í gegnum það að nota að einhverju leyti þá leið, það væri mjög fróðlegt. Þá verður að vísu alltaf að hafa í huga jaðarkostnað og hvað menn geta borgað fyrir einhverja viðbót án viðbótarfjárfestinga o.s.frv.

Það verður engin sátt við mig ef menn leggja þann skilning í, sem ég les því miður að mestu leyti út úr frumvarpinu, að það sé bara horfið endanlega frá allri hugsun um að byggja þetta á hugmyndafræðinni um auðlindarentu og afgjald fyrir aðgang að takmarkaðri, sameiginlegri auðlind. Ég ætla ekki að hverfa frá þeirri hugmyndafræði að það sé eðlilegasta og besta nálgunin. Það að leita að þessu í gegnum skattlagningu á hvert og eitt fyrirtæki er meingölluð aðferð vegna þeirra vandamála sem þá koma upp, menn leiti þá allra leiða (Forseti hringir.) í bókhaldi sínu og skattskilum til að koma sér undan greiðslunum með því að sýna eins slaka afkomu á pappírunum og mögulegt er, þannig að það er ekki lausnin heldur.