144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[18:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Út af fyrir sig væri kannski sanngjarnt að segja að jafnvel hörðustu andstæðingar veiðigjalda og þeir sem hæst höfðu á síðasta kjörtímabili eru nú hér sjálfir að leggja þó fram frumvarp sem gerir ráð fyrir um 10–11 milljarða tekjum af veiðigjöldum. Ég er ekki viss um að það hefði mátt ráða af málflutningi þeirra 2011 að slíkt stæði til. Einhver árangur hefur þó þrátt fyrir allt náðst, held ég. Í staðinn fyrir veiðigjöld sem voru bara eins og hver annar brandari, nánast engin, á árum áður, er þó kominn tekjustofn sem munar um. En ég er sömu sannfæringar og fyrr og miðað við afkomu sjávarútvegsins og sterka stöðu eins og hún er í dag, sjöunda árið væntanlega að baki með alveg afbrigðilega góðri afkomu 2014 og prýðilegt ár að ganga um garð núna, samanber góða loðnuvertíð og ágæt aflabrögð o.s.frv., tel ég að gjaldtaka af stærðargráðunni 15–18 milljarðar plús sé hófleg gjaldtaka, greinin ráði mjög vel við það, sérstaklega ef við útfærðum skynsamlega afslætti fyrir minni aðilana. Það er engin einasta spurning í mínum huga að þannig gæti greinin lagt sitt af mörkum.

Og já, mér finnst ekki verjandi og ekki sanngjarnt að örfáir aðilar, eigendur að stærstu sjávarútvegsfyrirtækjunum fyrst og fremst, geti rakað í sinn vasa gríðarlegum auði út á það að þeir eru í stöðu til að nýta þessa sameiginlegu auðlind þjóðarinnar. Það er sanngjarnt að miklu, miklu stærri hluti þeirra viðbótarverðmæta komi í hlut eigandans sem er þjóðin. Við höfum þörf fyrir það, rétt eins og við þurfum að endurskapa okkar orkubúskap og margt fleira til að tryggja okkur eðlilegan arð af þeim auðlindum, sem við fáum ekki í dag, sérstaklega ekki þeim hlutum (Forseti hringir.) sem nýttir eru til raforkuframleiðslu í fallvatni og jarðhita. Þar gæti þjóðin líka verið að fá tugmilljarða auðlindarentu til sín ef rétt væri gefið.