144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

vitnað í orðaskipti á lokuðum nefndarfundi.

[15:40]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt, þegar við erum að boða gesti á nefndarfund og sinna eftirlitshlutverki okkar sem þingmenn, að upplýst sé um það að efnið sé á dagskrá enda hefur það ítrekað verið gert. Hér hafa einstakir þingmenn óskað eftir fundum um ákveðin mál, þeir hafa jafnvel sjálfir sent upplýsingar til fjölmiðla, látið vita að ræða eigi málið og hafa gjarnan verið í viðtölum í framhaldinu.

Ég tek heils hugar undir það með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur að ekki á að vitna beint í persónulegar tilvitnanir einstakra þingmanna sem kasta fram hugmyndum sínum á nefndarfundum. En í þessu tilfelli var um að ræða almenna athugasemd frá landlækni og raunar athugasemd sem hefur löngu komið fram í fjölmiðlum, bæði frá landlækni og frá þeim sem voru þar frá Landspítalanum. Þannig að mér finnst þetta stormur í vatnsglasi í þessu tilfelli.

Við þurfum auðvitað að skýra þessar reglur, ég tek undir með þeim sem hér hafa talað, og hafa þetta á hreinu, vegna þess að við viljum vita að við séum í ákveðnu umhverfi. En það er gríðarlega mikilvægt að við komum upplýsingum út í samfélagið um það (Forseti hringir.) sem við erum að gera þegar við erum að sinna eftirlitshlutverki okkar.