144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

685. mál
[14:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Garðyrkjubændur hafa lagt á það ríka áherslu að fáninn sé aðeins merktur á vöru sem framleidd er innan lands og matvöru sem ræktuð er hér, eins og íslenskir tómatar, og er merkt fánanum. Garðyrkjubændur hafa talið það skipta mjög miklu máli að hægt sé að rekja fánamerkta vöru sem kemur beint frá býli. En hér er talað um að hönnunarvara teljist íslensk að uppruna ef hún er hönnuð af íslenskum aðila undir íslensku vörumerki þó að hún sé framleidd erlendis. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er þetta ekki til þess að rýra gildi þessara merkinga frá því sem nú er og garðyrkjubændur hafa lagt áherslu á? Mun þetta til dæmis þýða að Ora-grænar baunir beri þá íslenska fánann vegna þess að varan er framleidd hér á landi en hráefnið í útlöndum? Ég vil biðja hæstv. forsætisráðherra að fara aðeins betur yfir það með mér, að skýra þetta betur út fyrir mér.

Ég verð að viðurkenna það að ég missti af fyrri hluta ræðu hæstv. ráðherra, ég biðst afsökunar á því. Hæstv. ráðherra hefur ef til vill komið inn á þessi áherslumál garðyrkjubænda. Mér sýnist að með þessum tillögum sé verið að rýra gildi þessarar merkingar frá því sem nú er og garðyrkjubændur hafa lagt áherslu á. Ég vil óska eftir viðbrögðum ráðherra við því.