144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

myndbandsupptaka af samskiptum þingvarðar og mótmælanda.

[15:31]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Til að svara hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni sem talaði um störf þingsins áðan, mér gafst ekki tækifæri til þess þá, hef ég fengið leyfi forseta til að koma hingað og ræða það undir liðnum um fundarstjórn.

Það er góð grunnregla að faglega sé staðið að því að meta réttmæti þess þegar ofbeldi hefur verið beitt og því bað ég forseta þingsins að athuga um atvikið hérna fyrir utan, hvort það hefði verið réttmætt beitt ofbeldi hjá þingverðinum. Við sáum myndbandsupptöku úr öryggismyndavélum þingsins á fundi forsætisnefndar á mánudaginn og þar kemur alveg skýrt fram að það er veist að þingverðinum, hann ver hendur sínar, þarf að bakka svolítið mikið áður en hann losar manninn af sér og hann skellur í jörðina.

Ég bað um að fá þetta öryggismyndband, sem sagt að það væri gert opinbert þannig að þingvörðurinn fengi uppreisn æru hvað þetta varðar. Skrifstofa Alþingis segir að hún geti ekki heimilað það. Ég átti góð og vinsamleg samtöl við þingverði, bæði fyrir og eftir fund forsætisnefndar. Þeir skildu að ég væri að kalla eftir þessu og sögðu að þeir væru með þessi öryggismyndbönd sem sanna atburðarásina.

Hins vegar (Forseti hringir.) voru það ekki fagleg viðbrögð …(Forseti hringir.) … Ég var ekkert … (Forseti hringir.) Það var annað … Það er það sem … (Forseti hringir.) óásættanlegt í athugasemdum, ekki í þingsal heldur í athugasemdum við frétt í fjölmiðli.