144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[15:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin eins langt og þau náðu. Mig langar líka að spyrja um þá þætti sem eru ágætlega passaðir í núverandi skipulagslögum og varða kæruleiðir almennings, því að tilhneigingin í skipulags- og umhverfislöggjöf undanfarinna ára hefur verið að forðast miðstýringu, að auka vald og áhrif íbúanna sjálfra. Öll þróun hefur verið í þá átt. Hér er um að ræða þingmál, og ekki það fyrsta, frá núverandi ríkisstjórn þar sem einmitt er verið að draga valdið til baka, það er aftur verið að miðja valdið á Íslandi og það er að draga sig upp munstur sem er mjög greinilegt í þeim efnum, sem er tilhneigingin til að taka völd til sín. Það er eitthvað sem við þurfum að gæta mjög vel að.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um kæruleiðir og aðkomu almennings, bæði í samræmi við núverandi skipulagslög en ekki síður í samræmi við Árósasamninginn.