144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[16:53]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Þetta mál snýst um það í mínum huga hvort við ætlum að opna fyrir umhverfi geðþóttaákvarðana eða hvort við ætlum að efla lýðræðislega umgjörð og fagþekkingu. Mér finnst mikilvægt að ákvarðanir sem varða umhverfi borgaranna réttindi þeirra og daglegt líf og sem flestar ákvarðanir séu teknar með lýðræðislegum hætti með aðkomu almennings og byggt sé á fagþekkingu. Við höfum til dæmis lagabálk sem fjallar um vernd sögulegra minja og þar eru langar málsgreinar um það hvernig eigi að tryggja fagþekkingu og að ákvarðanir séu byggðar á faglegum forsendum og það er heil stofnun, Minjastofnun Íslands, sem metur það hvenær eigi að friðlýsa hluti, fornminjar og þar fram eftir götunum. Þetta er vandaður lagabálkur og kveðið á um það hvað á að gera þegar álitamál koma upp og svo framvegis. Við höfum lagabálk sem heitir skipulagslög sem segir til um umgjörð allra þessara ákvarðana, hvernig eigi að ákveða að þarna liggi hjólreiðastígur eða ákveða að þetta hverfi eigi fyrst og fremst að vera verslunarhverfi, hvar megi byggja, hvar eigi að vera flugvöllur og þar fram eftir götunum. Í þeim lögum er líka ákvæði sem veitir sveitarstjórnum, eftir faglegt og lýðræðislegt ferli, ákvörðunarrétt að vernda byggð og heitir hverfisvernd.

Reykjavíkurborg er með mikil áform um verndun byggðar og mikil vinna í gangi um húsvernd í Reykjavík og ákvæðum hverfisvernd hefur verið beitt eftir lýðræðislegt ferli. Þannig að ég skil ekki þörfina á frumvarpinu. Ég verð að segja það hreint út. Ég fatta ekki af hverju þetta frumvarp er. Af hverju er þörf á því að taka þetta vald sérstaklega af sveitarstjórnum? Er það ekki til að flækja málin einstaklega mikið að einn þáttur í skipulagi borga og bæja sé tekinn út úr skipulagslögum og settur í einhvern annan farveg? Tökum dæmi. Í frumvarpinu sem hér er fyrirliggjandi segir að ef ráðherra ákveði að vernda byggð en samt séu uppi áform um framkvæmdir á þeim byggðareit verði sveitarstjórnin að leita eftir áliti almennings um þær framkvæmdir. En hvers konar ferli er það? Er það grenndarkynning og það allt saman sem er fjallað um í skipulagslögum? Er þetta einhvers konar önnur tegund af aðkomu almennings í frumvarpinu allt í einu? Það er ekkert vísað í skipulagslög. Þetta er einhvern veginn í tómarúmi.

Ég er ekki fylgjandi því að við förum að breyta lögum og taka upp nýja lagabálka vegna þess að tilteknir ráðherrar hafi áhuga á einhverju, þó að þeir hafi áhuga á því að efla og vernda sögulega byggð skrifi þeir ekki lagabálk um það. Ég deili markmiðunum um að vernda sögulega byggð, en við þurfum líka að horfast í augu við það að álitamál tengd verndun byggða geta verið mjög djúp og heit. Hér hefur verið tæpt á því að þessi hús eru náttúrlega í eigu einhverra og það geta verið alls konar hugmyndir um að gera hluti í byggðakjörnum og fólk á þessi hús. Þá segi ég að þegar taka þarf hugsanlega erfiðar ákvarðanir um að vernda einhverja byggð, gegn ýmsum hagsmunum sem eru fyrirliggjandi, t.d. áformum um að byggja þar eitthvað nýtt, verðum við að reiða okkur á þau tæki og tól sem eru best í því. Það eru lýðræðisleg ferli. Það er erfitt fyrir hagsmunaaðila að gera ágreining um niðurstöðu sem verður til í lýðræðislegu ferli og kveðið á um í skipulagslögum og með aðkomu fagaðila að það sé einhver stofnun, stjórnsýsla sem meti það að raunverulega sé mikil þörf á því að vernda ákveðinn bæjarhluta. Þá geta hagsmunaaðilarnir sem hugsanlega vilja byggja þar kannski sætt sig við þá niðurstöðu. Hér á ráðherra hins vegar að ákveða þetta. Hann bara ákveður að vernda byggðina. Hver er þá staða hagsmunaaðila ef þeir vilja ekki vernda, ef þeir vilja byggja þarna? Hvaða kæruleiðir hafa þeir? Hvaða forsendur hafa þeir til að sætta sig við úrskurð ráðherrans? Hver er aðkoma fagaðilanna? Hver er aðkoma almennings? Af hverju ætti þetta að vera besta leiðin til að tryggja eða gera hærra undir höfði vernd byggða, að færa hana undir geðþóttaákvörðunarvald ráðherrans? Það er ekki sterkara ákvörðunarvald en hið lýðræðislega og faglega ákvörðunarvald. Engan veginn.

Ég spurði hæstv. forsætisráðherra áðan hvað mundi gerast ef í stólinn settist ráðherra sem hefði engan áhuga á því að vernda byggð. Hvað gerist þá? Hver er þá staða sveitarfélags sem vill vernda byggð? Ákvæðið um hverfisvernd hefur þá verið tekið úr skipulagslögum sem þýðir að sveitarfélög eiga ekkert tæki í þeim lagabálki til þess að vernda byggðina, hafa ekki þau tól sem þau hafa núna. Þau verða samkvæmt frumvarpinu undantekningarlaust að spyrja ráðherrann, verða að leggja tillögu fyrir hann um að vernda byggðina. Hvað ef ráðherrann segir nei, ég hef engan áhuga á því að vernda þessa byggð, ég hef engan áhuga á því yfir höfuð að vernda nokkrar byggðir, nú skuluð þið bara byggja ný hús. Hvað ef svoleiðis ráðherra kemur, hver er þá staða íbúanna? Hver er staða sveitarstjórnarinnar? Hvaða ráðum getum hún beitt til þess að koma í veg fyrir stórbrotin menningarsöguleg slys innan sinna sveitarstjórnarmarka? Það er búið að taka tólin af sveitarstjórnunum og færa þau ráðherra. Það þýðir samkvæmt frumvarpinu að ákvarðanir í þessum mikilvæga málaflokki verða undirseldar geðþóttavaldi ráðherrans. Í mínum huga heitir það ekki að gera málaflokknum hærra undir höfði eins og hæstv. forsætisráðherra sagði að hann væri að gera. Það heitir það bara alls ekki. Ég held við séum að fara með málaflokkinn einmitt á hættulegar brautir.

Maður getur haft áhuga á ýmsu í pólitík. Ég hef til dæmis áhuga á því að lagðir verði fleiri hjólreiðastígar í Reykjavík. Hvað ef maður stæði nú að ríkisstjórnarmyndun og til stæði að efla ætti vistvænar samgöngur og hjólreiðastíga? Það eru mjög göfug markmið og mikilvæg. Ég get nefnt annað. Leiksvæði fyrir börn. Að ríkisstjórnin setji það í stjórnarsáttmála að hlúa eigi einkar vel að umhverfi barna, að skólalóðum og leiksvæðum og það verði hluti af metnaðarfullri fjölskyldustefnu í landinu. Ég vil nefna þessi tvö dæmi, annars vegar um vistvænar samgöngur, hins vegar um fjölskyldustefnu. Þetta væru örugglega óumdeilanleg markmið. Hver vill þetta ekki? En af hverju skyldum við þá ekki, fyrst fordæmi er gefið hér, setja sérlög um leiksvæði barna og skólalóðir með ákvæði um að allar ákvarðanir um leiksvæði og skólalóðir skulu vera teknar af ráðherra og við færum þann málaflokk sérstaklega inn í það ráðuneyti sem ég hugsanlega verð í svo ég geti ráðið öllu um það, er það ekki, því þetta er á sérstöku áhugasviði mínu. Við segjum sveitarfélögum að þau eigi ekkert að hugsa meira um það hvar leiksvæðin eru eða hvernig skólalóðirnar eru vegna þess að nú ákveði ráðherra þetta. Mjög mikilvægt mál og við gerum því hærra undir höfði með því að ráðherra ákveði þetta. Er það? Værum við að gera það? Værum við ekki að færa ákvörðunarvaldið einmitt úr allri umgjörð skipulagslaga þar sem kveðið sé á um lýðræðislega nálgun og aðkomu almennings og þar fram eftir götunum? Værum við ekki einmitt að fara með þetta mikilvæga mál, uppbyggingu leiksvæða fyrir börn, algjörlega út í móa þar sem sú uppbygging yrði algjörlega háð geðþóttaákvörðun eins manns?

Ég held að menn verði að skilja betur hvað felst í lýðræðislegri aðkomu og aðkomu fagaðila. Þetta er okkar besta leið til að „settla“ mál, til þess að ákveða hluti þannig að ekki verði ágreiningur eftir það. Það er oft rosalega heitar deilur um skipulagsmál, mjög heitar, vegna þess að hagsmunir eru mjög miklir víða og skoðanir mjög skiptar. Einhver kaupir gamalt hús, t.d. í miðborginni, og hefur hugmyndir um að gera eitthvað við það, byggja við það glerskála eða eitthvað slíkt og telur að skálinn sé algjörlega í samræmi við anda hússins. Skipulagsyfirvöld gera hugsanlega athugasemdir við það. Þá er hægt að fara með þann ágreining í ferli. Það eru ýmsar kæruleiðir til. Það er grenndarkynning. Það er hægt að reyna að sannfæra nágrannana um þetta. Hvaða réttlæti er í því að hafa kannski keypt hús einhvers staðar, svo eru kosningar og eftir kosningar ákveður ráðherrann að þessi byggð skuli friðuð? Hann ákveður það. Öll áform manns um endurbyggingu með tilteknum hætti á þessu húsi eru þar með í upplausn. Hverjar eru kæruleiðirnar? Hvar stendur eigandi hússins gagnvart þessari ákvörðun? Það er ekki bundið skipulagslögum. Hver er rétturinn? Á hann að fara að spyrja nágrannana og afla liðsinnis þeirra? Það er ekkert skilgreint í frumvarpinu.

Hæstv. forsætisráðherra heldur því fram að þessu sé svona farið í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Ég mundi vilja heyra þau dæmi. Er það sem sagt í mörgum löndum þannig að forsætisráðherra ákveði slíkt einhliða? Hann getur eiginlega gert það einhliða samkvæmt þessu, hann getur farið fram á það við Minjastofnun að hún geri tillögu til sín um að friða bæjarhluta, enga aðkomu almennings, í sjálfu sér enga aðkomu fagaðila. Hann getur gert þetta. Getur ráðherra gert þetta víða? Það eru fréttir fyrir mér. Ég hef upplifað þróun stjórnmálanna þannig að miklu frekar sé verið að færa völdin út til almennings en aftur til ráðherranna vegna þess sem ég hef talað um hér áður, vegna þess að þar er valdið, þar er uppspretta valdsins. Við það vald er erfitt að eiga ágreining þegar niðurstaða fæst og besta leiðin til að leysa úr ágreiningsmálum er að ráðfæra sig við hið lýðræðislega vald. Ég vil bæta við hið faglega líka. Þetta fer yfirleitt saman. Í hvaða löndum er þetta svona eins og í frumvarpinu? Af hverju er ekki fjallað um það í greinargerðinni? Ég sá það ekki.

Í frumvarpinu er sagt að það hafi verið átt samráð við sveitarfélögin. Ég hef aðeins grennslast fyrir um það og mínar heimildir segja að samráðið, t.d. við Reykjavíkurborg, það var fullyrt í mín eyru, hafi ekki verið neitt, en hvað veit ég? Hér standa orð gegn orði. Miðað við það sem ég heyri frá sveitarfélögunum þá eru þau skiljanlega á móti frumvarpinu, enda er verið að taka frá þeim vald sem er mjög eðlilegt að sé á þeirra hendi og bundið skipulagslögum.