144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[21:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Maður hefur lært það af sinni takmörkuðu reynslu að tíu mínútur fyrir svona ræðu reynist yfirleitt afskaplega lítill tími, ég ætla því að reyna að halda mig við tvö atriði sem eru í meginatriðum tveir punktar af þremur í flokki eitt, þ.e. hættum sem ber að setja í forgang með hliðsjón af viðbúnaði og fjármunum. Fyrri punkturinn er umhverfisvá eða slys vegna aukinna umsvifa á norðurslóðum, seinni er um netógnir og skemmdarverk á innviðum samfélagsins, en sá punktur sem ég nefndi er 8. liður í tillögunni.

Fyrst agnarstutt um umhverfisvána eða slys vegna aukinna umsvifa á norðurslóðum. Nú vitum við öll að margir sjá fyrir sér að olíuvinnsla getur hafist á norðurslóðum og sitt sýnist hverjum í því efni. Mig langar að nefna það sérstaklega að þegar kemur að öryggi Íslands er sennilega fátt dýrmætara fyrir það samfélag sem við búum í en fiskurinn í sjónum og lífríkið í sjónum í kringum landið. Þess vegna lít ég svo á að það væri með öllu fullkomlega og algerlega óhugsandi að eiga það á hættu að einhvers konar slys, olíuslys, yrðu á norðurslóðum sem mundi stofna því lífríki í hættu. Ég tel að það þyrfti ekki svo mikið til. Það er meðal annars af þeim ástæðum sem ég er ekki hlynntur því að fara í olíuvinnslu á norðurslóðum, en það er mín persónulega afstaða og aftur vil ég árétta það að ég tala hér bara fyrir mig sem tiltekinn þingmaður, ég get ekki talað fyrir aðra í mínum þingflokki.

Það sem ég tala kannski aðeins meira fyrir aðra í mínum flokki er 8. liður tillögunnar sem varðar netógnir og tölvutengda glæpi. Það er kannski sú ógn sem við Íslendingar höfum í raun og veru bestu færin til að bregðast við á einhvern hátt eða gera ráð fyrir, þ.e. þegar kemur að ógnum af manna völdum. Vitaskuld erum við alvön því á Íslandi að berjast við náttúruna, höfum þurft að gera það yfir þúsund ár og lengur en það, en hins vegar þegar kemur að því að verjast árásum frá öðru fólki erum við hreinlega ekki vön því sem þjóð. Við höfum auðvitað ekki þennan hernaðarhugsunarhátt, sem er gott eða það er alla vega gott að við teljum okkur ekki þurfa þess.

Þegar kemur hins vegar að netinu og netógnum held ég að sú staðreynd að við höfum ekki þennan hernaðarhugsunarhátt sem að öllu jöfnu er góður, þ.e. skortur þar á, hann komi okkur í pínulítinn bobba vegna þess að á netinu eru stöðugar árásir. Bara sem dæmi held ég úti litlu forriti fyrir sjálfan mig til að aðstoða mig við þingvinnuna, það er hugbúnaður sem ég skrifaði sjálfur. Ég setti það upp á vef, gerði viðeigandi öryggisráðstafanir o.s.frv. en svona í gamni fylgist ég vel með því þegar einhver er að ráðast á það. Ég geri mér þó grein fyrir að ég get aldrei fylgst með öllum en ég gríp eitt og eitt atvik og þau eru stanslaus, þau eru allan daginn, það eru stanslausar netárásir á meira eða minna öll kerfi allan sólarhringinn. Hakkarar skipta milljónum, þeir sofa aldrei, þeir eru alltaf að ráðast á okkur, stanslaust. Og það er þess vegna sem það er svo mikilvægt að við höfum í huga þegar kemur að því að bregðast við þeirri ógn, sem eru netógnir og tölvutengdir glæpir, að í fyrsta lagi getum við aldrei stöðvað árásirnar í sjálfu sér. Við verðum að gera ráð fyrir að alltaf sé verið að ráðast á okkur.

Einnig verð ég að taka undir annan punkt sem kemur fram í greinargerð um 8. lið, sem er að auka áfallaþol stjórnsýslu og stofnana. Það er gríðarlega mikilvægt vegna þess að það sem við getum líka gert ráð fyrir er það að af og til munu óprúttnir aðilar komast inn í kerfin hér, jafnvel mjög mikilvæg kerfi. Vil ég vekja sérstaklega athygli á einu sem við Íslendingar erum gjarnir á að gera og það er að safna persónuupplýsingum, kannski bara eðli málsins samkvæmt vegna þess að við erum lítil þjóð. Ég meina, mér vitandi er einn Helgi Hrafn Gunnarsson í hinum gjörvalla þekkta alheimi, einfaldlega vegna þess að ég er Íslendingur og enginn annar Íslendingur heitir þessu nafni. Við Íslendingar erum því alltaf afskaplega berskjaldaðir gagnvart því að vera einkenndir á einhvern hátt. Við erum með kennitöluna og notum hana þori ég að fullyrða oftar en nafnið þegar við eigum við opinberar stofnanir, banka, jafnvel lögfræðinga. Ég segi alltaf við útlenska vini mína til að hrella þá, sérstaklega ef þeir eru frá Þýskalandi eða Hollandi, að þegar maður hringir í bankann eða lögfræðing þá segir maður ekki til nafns heldur til þessarar tölu, tíu stafa tölu sem einkennir mann sem Íslending. Ég kalla það stundum „citizen number“ á ensku eða þegnanúmer einhvers konar til að gera grín að þessu öllu saman.

Auðvitað dregur maður þó ekki úr gagnsemi alls þessa. Þvert á móti er það einmitt gagnsemi kennitölunnar og gagnsemi þeirra meðferðarupplýsinga sem við höfum á Íslandi en sem gerir það að verkum að þetta eru líka hættulegar upplýsingar, þ.e. ef við förum ekki vel með þær. Við erum afskaplega gjörn á að safna upplýsingum hingað og þangað. Ég vil nú meina að lagaumgjörðin sé að skána með tímanum. Það eru ríkar áherslur á persónuvernd, sem er gott, og ríkari áhersla er á að hafa smá leynd sem er í lagi, en það undirstrikar það samt sem áður að við verðum einmitt, eins og segir í greinargerð með 8. lið í tillögunni, að auka áfallaþol stjórnsýslu og stofnana. Við verðum að gera ráð fyrir því að af og til muni varnirnar bresta, sérstaklega vegna þess að við erum agnarsmá þjóð og höfum einfaldlega ekki burði til að verjast mjög háþróuðum hakkarateymum, óvinveittum, og hvað þá stórþjóðum. Ég held því að við þurfum í sífellt meiri mæli að reiða okkur á alþjóðlega samvinnu.

Nú þegar hefur netöryggissveit, CERT-teymi, verið sett á laggirnar innan embættis ríkislögreglustjóra, segir hér, og það er gott og blessað, sjálfsagt mjög hæfir menn, en þeir verða alltaf mjög fáir. Ég á mjög bágt með að trúa því að það verði nokkurn tíma mögulegt fyrir ríkið að keppa við einkamarkaðinn þegar kemur að öryggissérfræðingum, þeir eru ofboðslega fáir á Íslandi og í beinu samhengi við það frekar dýrir, mundi ég ætla. Þeir hafa mikla tilhneigingu til að vinna annars staðar fyrir fyrirtæki erlendis einfaldlega vegna þess að eftirspurnin er meiri. Guð má vita hve mörg fyrirtæki eru til sem telja fleiri manns en alla Íslendinga. Þetta er því eitthvað sem ég lít svo á að við þurfum að gera meira og meira í samvinnu við aðrar þjóðir en standa þó þannig að málum hér að við áttum okkur á því að við eigum náttúrlega óvini á netinu sem við höfum ekki átt áður. Það er í meginatriðum einhverjir úti í heimi sem við vitum ekkert hverjir eru eða hvað þeir vilja eða hvers vegna. Eins og ég segi, það eru stanslausar árásir, alltaf, á meira eða minna öll netkerfi. Við verðum alla vega að ganga út frá því.

Við þurfum einhvern smá hernaðarhugsunarhátt þegar kemur að þessu en þó vil ég undirstrika að sá hernaðarhugsunarháttur getur heldur aldrei orðið þannig að hann verði, hvað á maður að segja, í árásarstíl af nokkru tagi hér á Íslandi. Hann verður alltaf varnarmegin vegna þess að við verðum alltaf að hafa veggina okkar í lagi. Við munum aldrei senda út einhverja hermenn til að ná í einhverja vonda kalla á netinu þegar kemur að þjóðaröryggismálum, held ég, ég sé það ekki fyrir mér. Við þurfum að hafa varnirnar í lagi og við þurfum að einbeita okkur að því. En það er þó alveg í samræmi við, held ég, þá stöðu sem Íslendingar almennt vilja að Ísland sé í, þ.e. ekki þeirri að stuðla að því að vera nokkurn tíma í hernaðarbröltinu sjálfu heldur miklu frekar reyna að stuðla að því að fyrirbyggja skaða, fyrirbyggja hernað og fyrirbyggja árásir af nokkru tagi. Met ég það sem svo að þegar kemur að upplýsingatækninni getum við alveg tileinkað okkur sömu heimspeki með þeim eina fyrirvara að við verðum að átta okkur á því að við erum stanslaust undir árásum og verðum það um ókomna tíð.

Ég hef því miður ekki tíma fyrir meira, eins og ég sagði hér í upphafi, og læt ég þar við sitja þar til kemur að frekari umræðu um þetta mál.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.