144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

framhald uppbyggingar Landspítalans.

[15:18]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Nú standa yfir alvarleg verkföll, m.a. á Landspítalanum. Ljós er að ef ná á yfirlýstu markmiði, að hér verði áfram rekin heilbrigðisþjónusta í fremstu röð og að við verðum þar samkeppnisfær við aðrar Norðurlandaþjóðir, þarf tvennt að koma til. Annars vegar sambærileg laun og starfsaðstaða fyrir starfsfólk og hins vegar húsnæði, tæki og allur búnaður í fremstu röð.

Mig langar því að spyrja hæstv. forsætisráðherra sem verkstjóra ríkisstjórnarinnar um framgang mála varðandi endurbyggingu og nýbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss við Hringbraut. Í dag er á dagskrá Alþingis þingsályktunartillaga hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um ríkisfjármálaáætlun fyrir næstu þrjú ár. Þar stendur m.a., leyfi forseta:

„Í þessum áformum felst að gert er ráð fyrir því í áætluninni að lokið verði við byggingu sjúkrahótels á lóð Landspítalans á árinu 2017 og að lokið verði við fullnaðarhönnun á meðferðarkjarna LSH. Það felur í sér 860 millj. kr. hækkun framlags árið 2016 og samanlagt 5,1 milljarðs kr. útgjöld á tímabilinu.“

Þá hefur komið fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra að útboð á fullnaðarhönnun meðferðarkjarnans sé á áætlun í apríl og útboð vegna lóðaframkvæmda sjúkrahótels einnig, enda eigi að ljúka byggingu þess 2017.

Í dag er apríl nær að verða lokið og því eðlilegt að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort umræddar tímasetningar standist ekki, hvort verkstjórn hæstv. forsætisráðherra sé ekki í samræmi við yfirlýsingar fyrrgreindra hæstv. ráðherra.

Samstaða náðist um þetta mál á Alþingi með þingsályktun um nýjan Landspítala við Hringbraut í Reykjavík á síðastliðnu vori og hefur stjórnarandstaðan ítrekað lagt áherslu á að þetta mikilvæga mál fái framgang. Þá var samstaða um fjárheimild í fjárlögum þessa árs um nær milljarð, eins og áður sagði, til byggingar nýs Landspítala þegar hún kom til afgreiðslu í desember. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra hvort þetta mál sé ekki á áætlun og unnið að því samkvæmt samþykktum Alþingis og yfirlýsingum ráðherra fjármála og ráðherra heilbrigðismála.