144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

skimun fyrir krabbameini.

[16:05]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hvað tefur leit að ristilkrabbameini? er fyrirsögn blaðagreinar sem Ásgeir Theódórs, læknir og sérfræðingur í meltingarlækningum og heilbrigðisstjórnun, ritaði fyrr í vetur. Lestur þessarar greinar varð tilefni þess að ég óskaði eftir þessari sérstöku umræðu um þennan illvíga, lúmska sjúkdóm, þ.e. ristilkrabbamein, sem dregur um 52 Íslendinga til dauða á ári, þ.e. einn á viku, en talið er að 130–140 greinist á hverju ári.

Ásgeir sagði meðal annars í grein sinni, með leyfi forseta:

„Framsýnt heilbrigðiskerfi leggur ekki síst áherslu á markvissar forvarnir og aðgerðir þar sem gagnrýndar rannsóknir hafa sýnt fram á ávinning í þjóðfélagslegu tilliti.“

Það er einmitt þetta sem ég vil ræða á Alþingi núna, þ.e. leit að krabbameini í ristli og endaþarmi sem eina af þessum forvarnaaðgerðum þar sem þjóðfélagslegur og fjárhagslegur ávinningur er mjög mikill. Tæki og kunnátta til að leita, greina og meðhöndla þetta krabbamein hefur lengi verið til staðar, en við höfum lítið sem ekkert gert í þessum efnum nema tala um það, álykta og samþykkja.

Nú tel ég að tími athafna og framkvæmda sé sannarlega kominn hjá okkur Íslendingum, þótt fyrr hefði verið, og þar með að feta í spor nágrannaþjóða okkar sem þegar hafa hafið slíka leit. Árangurinn hjá þeim lætur ekki á sér standa því að talið er að fækkun dauðsfalla sé um 70–80% vegna þessa illvíga sjúkdóms. Þetta er athyglisverður árangur og sparar mikið af opinberu fé við meðferð, að ég tali nú ekki um fyrir viðkomandi einstaklinga.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem umræða um fyrirbyggjandi skimun og leit að ristilkrabbameini fer fram á hinu háa Alþingi. 3. maí 2002 var samþykkt á Alþingi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra í samráði við landlækni að gera tillögur um hvernig staðið skuli að forvarna- og leitarstarfi vegna krabbameins í meltingarvegi fyrir þá sem teljast vera í áhættuhópi og undirbúa framkvæmd starfsins.“

17. mars 2007 var samþykkt þingsályktun á Alþingi. Hún hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í samráði við landlækni að hefja undirbúning að skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi þannig að skipuleg leit hefjist á árinu 2008.“

Í desember sama ár skilaði vinnuhópur af sér ítarlegri skýrslu, m.a. um leit að krabbameini í ristli og endaþarmi. Síðan hafa ráðherra verið sendar nokkrar ályktanir frá Krabbameinsfélagi Íslands um sama efni þar sem samþykkt hefur verið ályktun um forvarnir gegn krabbameini í ristli og endaþarmi, eins og áður segir, og undir hana skrifuðu forsvarsmenn Krabbameinsfélags Íslands, landlæknisembættisins, Lýðheilsustöðvar, Félags meltingarsérfræðinga, Félags krabbameinslækna, Skurðlæknafélags Íslands og Félags íslenskra heimilislækna.

Virðulegi forseti. Það þarf ekki að fjölyrða um þennan illvíga sjúkdóm og hvað hægt er að gera ef skipuleg skimun er tekin upp og hvað hún getur bjargað mörgum mannslífum. Það er vegna þess að með skipulegri skimun er leitað að svokölluðum sepum í ristli eða endaþarmi og ef sepi er með afbrigðilegan vöxt er æskilegt að fjarlægja hann í skimuninni með svokallaðri snörun. Það er vegna þess að þessir separ geta með tímanum breyst í illvígt krabbamein. Með skimunarprófum er hægt að finna sepa og fjarlægja og minnka þannig líkur á að fólk fái sjúkdóminn og látist úr honum. Þetta segir meðal annars, virðulegi forseti, á vef Krabbameinsfélags Íslands.

Virðulegi forseti. Ég sagði í upphafi máls míns að tími athafna og framkvæmda væri löngu kominn hvað varðar skimun og leit að krabbameini í ristli og endaþarmi hér á landi. Landsmenn geta ekki lengur beðið, þjóðhagslegur ávinningur og sparnaður er augljós. Þess vegna hef ég óskað eftir þessari umræðu með eftirfarandi spurningum til hæstv. ráðherra:

Hversu margir hafa látist hér á landi af völdum ristilkrabbameins á ári hverju undanfarin ár?

Stendur til að hefja skipulega skimun eftir ristilkrabbameini hér á landi. Ef svo er, hvenær?

Hver er áætlaður kostnaður við slíka leit á ári og hvernig skiptist hún miðað við stærstu útgjaldaliði?

Að lokum: Hver er áætlaður kostnaður sjúklings (Forseti hringir.) við slíka leit?