144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

skimun fyrir krabbameini.

[16:10]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að efna til þessarar umræðu um skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi. Umræðan er ekki ný af nálinni en hún er vissulega brýn. Eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns áðan var 17. mars 2007 samþykkt á Alþingi þingsályktun þar sem hæstv. þáverandi heilbrigðisráðherra var falið að hefja undirbúning að skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi og var gert ráð að skimun hæfist á árinu 2008.

Forveri minn í starfi heilbrigðisráðherra skipaði í framhaldi af þessari þingsályktun ráðgjafarhóp undir formennsku sóttvarnalæknis sem meðal annars var falið að leggja mat á gildi og kostnaðarhagkvæmni skimana fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi og gera tillögur um aðgerðir. Ráðgjafarhópurinn skilaði lokaskýrslu í febrúar 2009 þar sem fram kom að skimun fyrir ristil- og endaþarmskrabbameini væri kostnaðarhagkvæm en framkvæmd hennar væri flókin. Þá lagði ráðgjafarhópurinn til að hafin yrði skimun fyrir ristil- og endaþarmskrabbameini meðal fólks á aldrinum 60–69 ára þar sem því yrði boðið að skila hægðasýnum annað hvert ár og í sýnunum leitað að blóði. Þeim sem reyndust hafa blóð í hægðum yrði boðið til ristilspeglunar. Jafnframt var lagt til að sú reynsla sem fengist af þessari skimun yrði lögð til grundvallar frekari verkefnum í framtíðinni. Í ljósi efnahagsþrenginga sem gengu yfir árið 2008 og þess niðurskurðar sem hið opinbera þurfti að sæta í kjölfarið var ekki unnt að hefja skimanirnar og hefur aðgerðum verið ítrekað frestað.

Hv. þingmaður spyr hvort fyrirhugað sé að hefja skipulega skimun fyrir ristil- og endaþarmskrabbameini hér á landi og ef svo er, hvenær. Svarið við spurningunni er já. Nú er á vegum ráðuneytisins unnið að undirbúningi að því að hefja kerfisbundna skimun fyrir ristil- og endaþarmskrabbameini. Undirbúningurinn er unninn í samstarfi við Krabbameinsfélag Íslands, embætti landlæknis og ýmsa sérfræðinga og við þá vinnu er höfð til hliðsjónar sú skýrsla sem ég gat hér um frá ráðgjafarhópnum árið 2009. Ekki hafa verið teknar endanlegar ákvarðanir um hvaða aðferðum verði beitt við skimun en þar verður einungis beitt aðferðum sem uppfylla ýtrustu kröfur sem gerðar eru til skimunar af þessu tagi. Því miður er að svo stöddu ekki hægt að segja til um hvenær þessari vinnu lýkur og þar af leiðandi ekki hvenær unnt verður að hefja kerfisbundnar skimanir fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi. Eins og ég sagði er undirbúningur að því verki í fullum gangi á vegum ráðuneytisins.

Varðandi áætlaðan kostnað vegna skimana fyrir ristil- og endaþarmskrabbameini er rétt að geta þess að ráðgjafarhópurinn taldi í skýrslu sinni frá árinu 2009 að skimanir fyrir aldurshópinn á árabilinu 60–69 ára mundu kosta um 58 millj. kr. en það er á verðlagi á miðju ári 2008. Miðað við vísitölu neysluverðs og fjölda fólks á þessu aldursbili í dag samsvarar þetta um það bil 107 millj. kr. Það er áætlað að þær mundu lækka dánartíðni um 18% ef þetta yrði unnið með þessum hætti eða forða um 17 manns frá dauða ef hópnum yrði fylgt eftir í tíu ár. Að svo stöddu liggur ekki fyrir hvort gert verði ráð fyrir greiðsluþátttöku sjúklinga sjálfra í skimun og þá hvernig greiðsluþátttöku þeirra yrði háttað almennt ef ákveðið yrði að fara þessa leið.

Ég vil þó geta þess að árlega fara á bilinu 10–12 þús. manns í ristilspeglun. Á árinu 2014 fóru um 14 þús. manns í fullkomna ristilspeglun, 12.200 árið 2013 og tæp 2 þúsund í styttri speglun. Áætlaður brúttókostnaður við þetta er 281 millj. kr. Samkvæmt upplýsingum úr krabbameinsskrá greinast árlega að meðaltali 133 tilfelli af krabbameini í ristli og endaþarmi. Þá er krabbamein í ristli þriðja algengasta krabbameinið hjá báðum kynjum og árlega deyja 54 einstaklingar af völdum þessa krabbameins. Með hliðsjón af þeim upplýsingum er mikið í húfi og brýnt að hrinda sem fyrst í framkvæmd lýðgrundaðri skimun fyrir ristil- og endaþarmskrabbameinum.