144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

skimun fyrir krabbameini.

[16:18]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Hugsaðu um eigin rass, var slagorð mottumars fyrr í vetur. Árlega greinast 750 íslenskir karlmenn með krabbamein og því vil ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga máli. Ristilkrabbamein er eitt algengasta krabbamein hjá körlum hér á landi og nýgengi hefur aukist, einkum hjá körlum, en ristilkrabbamein er eitt af fáum krabbameinum sem unnt er að greina á forstigi og byrjunarstigi og því hægt með fyrirbyggjandi aðgerðum að fækka sjúkdómstilfellum verulega og bjarga mannslífum.

Bílar eru skoðaðir reglulega og hafa sitt viðhaldsprógramm eftir keyrslutíma. Í skipaflotanum er varla til það skip sem ekki vinnur eftir viðhaldsforriti sem segir hvenær eigi að yfirfara nánast hverja skrúfu í vélbúnaði. Þegar vélstjórar mæta á vaktina er kíkt í tölvuna og athugað hvað er komið á viðhaldstíma þann daginn. Strangast er þetta að sjálfsögðu í fluginu því að þar er slitflötum hreinlega skipt út eftir ákveðinn tímafjölda burt séð frá ástandi.

Þegar kemur að okkur sjálfum er ansi tilviljanakennt hvenær karlmenn fara í krabbameinsskoðun. Sumir fara í skoðun eftir að náinn vinur eða ættingi greinist með alvarlegt krabbamein sem hefði að öllum líkindum verið hægt að fyrirbyggja með fyrirbyggjandi viðhaldi, með öðrum orðum með skimun. 50 ára mannslíkami hefur keyrslutíma upp á rúmlega 400 þús. klukkustundir. Er til of mikils mælst að þær skimanir sem sannarlega bjarga mannslífum verði gerðar? Margir fara reyndar í ristilspeglun á þeim tímamótum og ansi oft eru teknir separ sem oftar en ekki eru byrjun krabbameins. Góð reynsla af skipulagðri leit að brjóstakrabbameini hjá konum ætti að vera hvatning til frekari verka.

Kaldhæðnin er þó að á meðan við ræðum fyrirbyggjandi aðgerðir í krabbameinsmálum stendur yfir verkfall sem bitnar verst á krabbameinssjúklingum sem þar eiga enga aðkomu. (Forseti hringir.) Ég hvet því ráðherra til að hefja sem fyrst skipulagða skimun og krabbameinsleit hjá karlmönnum.