144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

skimun fyrir krabbameini.

[16:23]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Hún er ekki ný, eins og komið hefur fram, margir læknar hafa barist fyrir því áratugum saman að reglulegum skimunum verði komið á.

Ég verð að segja að ég hef alltaf áhyggjur af því þegar Alþingi tekur sig til og fer að tala um tilteknar læknisfræðilegar aðgerðir að sá hv. þingmaður aðhyllist almennt læknisfræði sem ekki er mjög viðurkennd eða þá að málaflokkurinn sé kominn í þó nokkrar ógöngur, að í það minnsta hafi mjög lengi ekki verið hlustað á eitthvað sem margir hafi kallað eftir. Mér sýnist klárlega hið síðarnefnda vera tilfellið hér og nú þar sem þetta er frekar gömul umræða, þetta hefur lengi verið í umræðunni, það er einhvern veginn alltaf svolítið beðið. Ég treysti hæstv. heilbrigðisráðherra fullkomlega fyrir þessu og mér þótti svar hans prýðilegt.

Í þessum málaflokki finnst mér við hafa tilhneigingu til að eiga við vandamálin þegar þau eru orðin mjög stór. Þegar kemur að heilbrigði almennt getur sparað svo óskaplega vinnu, peninga, tíma og líf að byrja snemma. Þegar kemur að svona málaflokkum þurfum við að átta okkur á því að þegar við eyðum peningum í eitthvað eins og heilbrigðiskerfið getum við ekki búist við því að sjá samstundis einhvern árangur. Við verðum að átta okkur á því að þegar við grípum snemma inn í erum við að fyrirbyggja eitthvað sem tekur langan tíma að grassera. Þetta held ég að sé hreinlega fylgikvilli þess að vera manneskja, kannski sérstaklega að vera Íslendingur, að eiga ekki við vandann fyrr en hann er orðinn allt of stór.

Að öðru leyti treysti ég hæstv. heilbrigðisráðherra mjög vel fyrir þessum málaflokki og þakka aftur fyrir umræðuna.