144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

skimun fyrir krabbameini.

[16:25]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga máli og hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin sem eru afdráttarlaust þau að hér eigi að hefja skimun í samræmi við þingsályktunartillöguna sem var samþykkt á sínum tíma en enn sé þó eftir að útfæra fyrir hvaða aldurshóp og með hvaða hætti slík skimun eigi að eiga sér stað.

Það hefur verið vakin athygli á því í umræðunni að það skiptir gríðarlega miklu máli að við hjálpumst að, ég ætla að segja það og heiti þar með stuðningi við hæstv. heilbrigðisráðherra, við að auka forvarnir og fyrirbyggjandi starf. Það er auðvitað það sem skiptir mestu máli í heilbrigðiskerfinu, að vera ekki með það sem oft hefur verið kallað að fara bara í viðgerðarþjónustuna þegar í vandræði er komið. Auðvitað er miklu auðveldara að segja þetta en að framkvæma það. Sjálfur hefur maður reynt það að bíða of lengi og vera svo kallaður inn á sjúkrahús vegna veikinda.

Þetta er ekki alveg vandalaust eins og menn láta þegar verið er að fjalla um þetta og ég ætla ekki að gerast sérfræðingur í þessu. Þess vegna treysti ég mjög vel sérfræðingunum sem fjalla um þetta. Það er til hugtakið ofskimun. Ofskimun og inngrip geta haft neikvæðar afleiðingar, við þurfum að hafa það í huga. Það þarf líka að tryggja að það sé verið að nota gagnreyndar aðferðir, þ.e. aðferðir sem raunverulega skila árangri en skapa ekki falskar væntingar. Ég veit að í þessu tilfelli erum við að tala um ristilkrabbamein og sérfræðingar segja: Þarna er akkúrat sú tegund krabbameins þar sem er skynsamlegt og nauðsynlegt að beita skimunum og þá með viðeigandi tæknibúnaði og skipulögðum innköllunum á fólki.

Ég heiti á hæstv. ráðherra að fylgja þessu máli áfram eftir eins og hann hefur boðað. Ég vek þó athygli á því að það skiptir gríðarlega miklu máli þegar skimun fer fram að hún kosti sjúklinga ekki mikið, ekki nema bara eitthvert eðlilegt komugjald. Þarna eru aðgerðir sem (Forseti hringir.) kosta töluverðan pening og ef það á að rukka það gjald kostar það mismunun milli íbúa þessa lands sem að minnsta kosti ég vil alls ekki að verði.