144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:39]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ábendingu og spurningu. Enn á ný erum við hv. þingmaður á sömu slóðum. Ég hafði einmitt rekið augun í þessa setningu þar sem stendur:

„Unnið er að breytingum á húsnæðisstefnu stjórnvalda með það að markmiði að styðja betur við tekjulágar fjölskyldur og styrkja stöðu fyrstu íbúðarkaupenda.“

Ég hafði merkt við: „Hvar og hvernig?“ Hvernig á að gera þetta og með hvaða peningum?

Það má segja að með þessari litlu setningu hafi bæst við þriðji óvissuþátturinn. Stóru óvissuþættirnir tveir, losun fjármagnshafta og staðan á atvinnumarkaði, eru gríðarlega stórir en í þessari einu setningu er gríðarlega stórt mál sem snertir margar fjölskyldur í samfélaginu. Þetta er því miður ekki útfært nánar í áætluninni og við vitum ekki enn hvenær sú útfærsla fer fram, hvað hún mun kosta ríkissjóð o.s.frv. þannig að enn bíðum við bara spennt eftir því að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra komi fram með frumvarpið sitt sem komi þá fram í þessari ríkisfjármálastefnu. Það er þá kannski verðugt tilefni að velta aftur fyrir sér hvort það þýði þegar þessir þrír óvissuþættir eru komnir saman að það þurfi að leggja fram aðra ríkisfjármálaáætlun. Þarna er væntanlega um að ræða gríðarlegar fjárhæðir, getur maður ímyndað sér, en hvergi er það tekið fram í þessari áætlun nema þá að talað er um lækkun samneyslunnar og dregið úr framkvæmdum á vegum ríkisins. Þetta er allt saman svolítið á skjön.

Við getum eiginlega ekkert annað gert en að bíða og sjá hvort gerðar verði einhverjar breytingar (Forseti hringir.) og bætt þá inn í þau stóru göt sem við sjáum í þessari áætlun.