144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

siðareglur fyrir stjórnsýsluna.

[15:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Að sjálfsögðu hef ég ekkert við það að athuga að það varði viðurlögum þegar menn misfara með vald sitt. Það þarf enginn að spyrja mig að þessu, þetta ætti að vera alveg augljóst.

Varðandi frumvarp Pírata um hagsmunaskráningu þá er ekki hægt að taka þá umræðu án þess að benda á að slíkar reglur eru til staðar. Mín ábending er sú að ég held að vel færi á því í þinginu að einu sinni til tvisvar á ári væri hverjum og einasta þingmanni send áminning: Svona stendur hagsmunaskráning þín í dag. Er þetta í samræmi við veruleikann, er ástæða til að uppfæra þetta, bæta einhverju við eða fella eitthvað út? Ég held að það væri til bóta fyrir framkvæmdina hér á þinginu. Með þessum hætti er víða starfað í stjórnsýslunni, t.d. varðandi innherjareglur.

Að öðru leyti segi ég með siðareglurnar að þær eru annars eðlis en lög og sumt af því sem hv. þingmaður nefnir varðar við lög og á heima í lögum.(Forseti hringir.) Annað getur verið í siðareglum sem hafa eðli málsins samkvæmt annað yfirbragð.