144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:06]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir svör hennar. Við deilum um margt skoðunum. Við erum reyndar algjörlega ósammála um forgangsröðunina varðandi skuldaleiðréttingu heimilanna. Ég er mjög ánægður og stoltur af þeirri aðgerð, þannig að það sé sagt, og af því að skuldahlutfall heimila og fyrirtækja skuli vera að lækka. Það má alveg færa rök fyrir því að það sé hálfkeynesísk aðgerð að fara þá leið og taka síðan á skuldum ríkissjóðs við þessar aðstæður. En það yrði of langt mál að fara út í þá rökræðu.

Hv. þingmaður kom inn á skattkerfið. Ég deili skoðunum hennar um jöfnunaráhrif í tekjuskattskerfinu og varðandi virðisaukann. Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á því að stefna á að fara í eitt þrep í virðisauka?