144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:34]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er víða hægt að sjá að það er óljóst hvort um er að ræða raunsæi eða bjartsýni umfram annað. Það er alveg augljóst þarna — þeir eiginlega svara því sjálfir í þessu plaggi, þetta með 5 milljarða greiðsluna inn á lífeyrisskuldbindingar, og þá er sérstaklega verið að horfa á B-hlutann. Það er sem sagt orðað ágætlega, þeir segja orðrétt: „Seinka því að sjóðurinn tæmist.“ Það er augljóst að þetta dugir ekki. Samtímis verðum við að hafa í huga að ríkið er í fullri ábyrgð og það er spurningin hvenær menn ná að greiða þetta niður. Mikilvægasta forsendan hvað þetta mál varðar er að menn nái samkomulagi á milli ríkis og launþegahreyfingarinnar um að jafna stöðu til langs tíma á milli almennu sjóðanna og lífeyrissjóða ríkisins. En þarna eru uppsafnaðar skuldbindingar sem menn þurfa að fjármagna og það er ljóst að menn eru ekkert að taka á því í þessari tillögu, það er bara sýndartillaga.

Þegar menn nefna 1% aðhaldsmarkmið þá var einhvern tíma sagt að menn ættu alltaf að vera með 1% aðhaldsmarkmið þó ekki væri nema til að taka inn pening og endurúthluta honum til nýjunga. En það væri þá að því gefnu að menn væru búnir að ná einhverri sátt um það hvað væri endanleg tala. Af því að hv. þingmaður nefndi bæði heilbrigðismálin og menntamálin þá hef ég nú sagt að það væri að mörgu leyti eðlilegt að nálgast heilbrigðismálin með því að skoða útgjöldin miðað við landsframleiðslu. Við förum úr því að vera með 9,5–9,7% af landsframleiðslu niður í 8,9% eða kringum 9%. Það vantar tugi milljarða til að fara í það sem var áður og það er ekkert af því hér.

Sama er með menntamálin. Á sama tíma og menn skáru niður 20–25% í menntamálum þá er eins og menntamálaráðuneytið geri ráð fyrir því og menntamálaráðherra að hægt sé að vinna með þá tölu með því að fækka nemendum með því að stytta nám til lokaprófs í þrjú ár og taka á sig launahækkanir en ekki að bæta við neinni krónu. Þetta gengur engan veginn upp, þarna er um að ræða mikið óraunsæi í ríkisfjármálaáætluninni.