144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:11]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019. Þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson talaði um að kannski væru stoðirnar undir þessari ríkisfjármálaáætlun feysknar, eins og hann orði það, kom upp í huga mér baráttusöngur sem sunginn verður víða 1. maí á baráttudegi verkafólks: Fram, þjáðir menn í þúsund löndum. Þar kemur fyrir „fúnar stoðir burtu vér brjótum“ og „að byggja réttlátt samfélag“.

Þannig hugsa ég og örugglega margir og þeir sjá ekki endilega þetta réttláta samfélag birtast í þessari ríkisfjármálaáætlun, því miður. Ég tek undir það sem hefur komið fram hjá mörgum hv. ræðumönnum á undan mér að það er gott að gera áætlanir fram í tímann fyrir heildarramma ríkisfjármála og síðan falla fjárlög hvers árs inn í þann ramma. En eins og þessi rammi lítur út sýnist mér að þar sé þröngur stakkur sniðinn hvað varðar margar framkvæmdir og áform sem hafa verið uppi um uppbyggingu samfélagsins í kjölfar hins mikla efnahagshruns, sem við erum smátt og smátt að vinna okkur út úr.

Mér finnst ánægjulegt að í þingsályktunartillögunni kemur fram að hagkerfið okkar hafi farið að taka við sér strax árið 2010 og að það hafi náðst heildarjöfnuður í fjármálum ríkisins árið 2013. Það er vissulega ánægjulegt og við þurfum að standa vörð um afkomu ríkissjóðs því að þannig stöndum við vörð um uppbyggingu þess velferðarsamfélags sem við viljum sjá. Það eru sem betur fer mörg teikn á lofti um að efnahagur þjóðarinnar fari batnandi vegna öflugra atvinnugreina, eins og sjávarútvegs, ferðaþjónustu, tæknigeirans, hugbúnaðargeirans og margt annað má telja upp. Þá vekur það athygli mína og áhyggjur hversu lítið hlutfall eða aukning er í innviðauppbyggingu í samfélaginu. Mér finnst mikið áhyggjuefni að verið sé að tala um að minnka samneyslu og færa yfir í einkaneyslu á næstu árum. Það er kannski ekkert óeðlilegt miðað við að hægri ríkisstjórn situr við völd að hún skuli fara þá leið, en það er auðvitað þvert á vilja okkar sem viljum jöfnuð í landinu og berjumst fyrir réttlátari skiptingu þjóðartekna.

Það kemur líka fram í ríkisfjármálaáætluninni að fjárfestingarstefna eigi að vera 1,2% af vergri landsframleiðslu. Það er langt frá því að vera nægjanlegt hlutfall til að halda í þá þörf sem er innbyggð í uppbyggingu innviðasamfélagsins, hvort sem maður tekur dæmi úr vegakerfinu, um samgöngur innan lands, eða af uppsafnaðri viðhaldsþörf í hinum ýmsu stofnunum sem skipta máli innan velferðarkerfisins, heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins. Við getum talið upp alla þá þætti. Á mörgum stöðum hafa menn þurft að þreyja þorrann, ekki verið fjárfest lengi og niðurskurður og samdráttur vegna þess erfiða efnahagshruns sem varð. Við sjáum ekki að verið sé að taka neitt sérstaklega á í þeim málaflokkum heldur aðeins reynt að halda dampi og sáralítið lagt í og ég hef virkilegar áhyggjur af því hvað það mun þýða. Það hefur verið komið inn á ýmsa hluti, eins og hvað verður með uppbyggingu nýs landspítala, hverju sé gert ráð fyrir í þeim efnum.

Það er líka horft til þess hvernig við ætlum að búa að öldruðum næstu árin með uppbyggingu hjúkrunarheimila, sem vissulega er mikil þörf fyrir, og líka til hins mikla bagga sem hvílir á ríkissjóði varðandi innborganir í lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Allt kallar það á að gert sé ráð fyrir því í þeim ramma sem lagt er upp með. Ég hef einnig miklar áhyggjur af launamálunum af því að ríkið gerir ráð fyrir því hvað varðar laun til opinberra starfsmanna, sem fellur undir þennan ramma, að einungis verði 2% kaupmáttaraukning. Ég tel það algerlega vanáætlað, en það er ekki gert ráð fyrir meiru.

Svo vöktu mikla athygli þau orð hæstv. fjármálaráðherra sem komu fram á dögunum að mögulega hafi verið gengið of langt í að jafna kjörin í landinu. Ég held að mörgum blöskri að hæstv. fjármálaráðherra skuli taka svo til orða. Í ríkisfjármálaáætluninni er á bls. 10 fjallað um vinnumarkaðinn og segir, með leyfi forseta:

„Við gerð kjarasamninga í árslok 2013 og ársbyrjun 2014 náðist samstaða meðal aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um að stuðla að stöðugu verðlagi og auknum kaupmætti með hóflegum launahækkunum. Niðurstaðan varð sú að samið var til skamms tíma um 2,8% launahækkanir með góðum árangri. Samningarnir reyndust lykillinn að þeim stöðugleika sem náðist á árinu 2014 og 5,3% vexti kaupmáttar launa, en kaupmáttur launa hefur ekki aukist jafn mikið um langt árabil.“

Orð hæstv. fjármálaráðherra stangast ansi mikið á við það sem kemur þarna fram. Þar er því hrósað að launin á almenna markaðnum hafi ekki hækkað um nema 2,8% í síðustu kjarasamningnum, það hafi skilað góðum árangri og varðveitt stöðugleika, en núna talar hæstv. ráðherra um að mögulega hafi verið gengið allt of langt í því að jafna kjörin. Mér finnst það til háborinnar skammar að hæstv. fjármálaráðherra leyfi sér að tala niður til þess fólks sem þarf að lifa á 214 þús. kr. á mánuði brúttó, og þá á eftir að draga frá ýmis launatengd gjöld. Ég held að það sé ekki mikill skilningur á þeim bænum á því að það sé uppsöfnuð þörf, bæði í opinbera geiranum og á almenna vinnumarkaðnum, fyrir að bæta kjörin. Ríkisvaldið getur ekki leyft sér að horfa fram hjá því og kasta svona sprengju fram í þær erfiðu aðstæður á vinnumarkaði sem vissulega er nú við að etja.