144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við sem erum jafnaðarmenn höfum kannski verið allt of feimin við það að tala fyrir sanngjörnum sköttum. Sanngjarnir skattar þýða í raun að fólk þarf ekki að borga beint upp úr eigin vasa þá þjónustu sem það sækir, hvort sem það er í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu eða ýmsu öðru sem snýr að grunnþjónustu í samfélaginu. Með því að hafa skatta sanngjarna eftir efnum og aðstæðum er byrðunum dreift. En hægri stjórnin hefur auðvitað selt sig í kosningum út á það að hún bæti svo mjög kjörin með því að lækka skatta. Því miður hafa margir keypt þessa sölubrellu hjá þeim og haldið að hún þýddi batnandi kjör en hafa svo oftar en ekki fundið á eigin skinni hvað þetta þýðir í raun þegar þeir þurfa að sækja heilbrigðisþjónustu og tannlæknaþjónustu, samgöngur eru lélegar og engir fjármunir til uppbyggingar þeirra. Það er líka niðurskurður í menntakerfinu eins og við horfum upp á núna þar sem verið er að hrekja marga framhaldsskóla út á ystu brún. Þetta er ekkert annað en það að hæstv. ríkisstjórn kýs að skera niður til þessara málaflokka og ýta samfélagsþjónustunni út í einkaframkvæmdir. Við horfum fram á að ójöfnuður í landinu mun aukast og það er ekki gæfulegt því það er ekki nein sátt í samfélagi þar sem ójöfnuður heldur áfram að aukast.