144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[15:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott og blessað að bæta rétt þeirra sem eru í leiguhúsnæði, en vandinn er sá að það skortir leiguhúsnæði og það skortir fjármuni í húsnæðiskerfið. Þess vegna er eðlilegt að ráðherra sé spurður um afdrif hinna stóru frumvarpa. Ég spyr félagsmálaráðherra: Hefur hún gefist upp við að ná stóru húsnæðisfrumvörpunum út úr fjármálaráðherra? Það er fjármálaráðherra en ekki ráðuneytið sem stendur í vegi fyrir afgreiðslu þeirra. Ætlar hún bara að sitja undir því að fjármálaráðherra skammi hana á opinberum vettvangi? Og ætlar ríkisstjórnin virkilega ekki að setja neina fjármuni í húsnæðismál á þessu vorþingi? Hefur hæstv. félagsmálaráðherra gefist upp við sumarþingið sem hún boðaði? Er hún hætt við það? Á nú bara að gefast upp í málinu og reyna kannski að taka það aftur upp á haustinu án þess að hafa þá nokkru meiri stuðning en hún hefur í dag?

Virðulegur forseti. Er ekki staðreyndin sú að félagsmálaráðherra hefur ekki stuðning ríkisstjórnarinnar til þess að fá fjárveitingar í þau frumvörp sem sitja föst í fjármálaráðuneytinu?