144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[16:09]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir ræðu hennar um frumvarpið um breytingu á húsaleigulögum.

Eitt vekur athygli mína alveg sérstaklega og mig langar að spyrja hv. þingmann út í. Fram kemur á bls. 9 í athugasemdum við lagafrumvarpið og farið er yfir það að þingsályktun nr. 1/142, eins og það heitir þar, um aðgerðir vegna skuldavanda heimila, var samþykkt á Alþingi 28. júní 2013, eða rétt eftir að núverandi ríkisstjórn tók við. Það sem ég er að tala um er þessi tímarammi. 28. júní 2013 var samþykkt á Alþingi þingsályktun um að fela félags- og húsnæðismálaráðherra að skipa verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Hv. þingmaður lýsti því að hún hafi átt sæti í þeim starfshópi. Síðan gerist það að verkefnisstjórnin um framtíðina skilar af sér 9. september 2013. Þá er nefnd skipuð og taldir til 32 hagsmunaaðilar með verkefnisstjórninni. Hún skilar svo af sér 6. maí 2014 og nú erum við komin hingað, 28. apríl 2015, og þá kemur fram í raun og veru þetta litla frumvarp. Það er tiltölulega lítið þó að það taki á ákveðnum málum. Í greinargerð fjármálaráðuneytisins kemur fram að það hefur engin áhrif á fjárhagsafkomu ríkissjóðs.

Spurning mín til hv. þingmanns er: Er þessi tímarammi með svo brýnt mál, lagfæringar á leiguíbúðakerfinu, er það ásættanlegt að þessi vinna taki tvö ár og út úr því fæðist þetta frumvarp sem við eigum að klára núna á 15 þingdögum sem eftir eru?