144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

lyfjalög.

645. mál
[22:14]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er rétt. Með því frumvarpi sem nú er til umfjöllunar í nefndinni er verið að auka jafnræði á milli miðla þannig að sjónvarp sé ekki eitt undanskilið varðandi heimildir til auglýsinga. Ég held að flestir í nefndinni séu sammála um að það er erfitt að mismuna, en lyf eru náttúrlega engin venjuleg vara. Lyf geta verið dauðans alvara eins og dæmin sanna, um 197 þúsund manns innan Evrópusambandsins eru taldir deyja árlega vegna aukaverkana lyfja.

Ef ekki er skylda að auglýsa aukaverkanir — oft og tíðum getur maður ekki lesið um aukaverkanir lyfjanna nema maður hafi keypt þau, opnað pakkninguna og flett út heilmiklum bleðli með upplýsingum á. Mörg lyf eru algeng í notkun, ýmis verkjalyf og fleiri sem hafa mörg hver aukaverkanir sem fólk gerir sér ekki grein fyrir.

Ég fagna framkomu þessa frumvarps og ég held að það sé mikið unnið að auka öryggi neytenda þegar kemur að upplýsingum um aukaverkanir lyfja og upplýsingum um að lyf eru alls ekki skaðlaus. Þó að lyf séu auðvitað ómetanleg og bjargi mannslífum og auki lífsgæði fólks til mikilla muna geta þau líka haft mjög alvarlegar afleiðingar. Það sem mér finnst erfiðast við frumvarpið sem varðar auglýsingar á lyfjum er að það er ekki hægt að meðhöndla lyf eins og hverja aðra vöru á markaði.