144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Virðulegur forseti. Aðgengismál hafa verið í umræðunni undanfarið, þá helst aðgengi fólks í hjólastólum að opinberum byggingum. Meðal annars var farin hringferð um landið þar sem aðgengi hjólastóla að opinberum byggingum var athugað. Í umhverfis- og samgöngunefnd í síðustu viku fengum við nokkra talsmenn hreyfihamlaðra á mjög svo upplýsandi en jafnframt sláandi fundi. Í minnisblaði, sem nefndin fékk, kom fram að 95% húsnæðis á Íslandi eru óaðgengileg hjólastólum en á sama tíma eru 65% húsnæðis á jarðhæð. Einnig kom fram að við verslunargötur er aðgengið undir 10% fyrir fólk í hjólastólum. Þá var sérstaklega nefnt að á þjónustu- og veitingastöðum væri þessu ábótavant.

Hér er vandamálið tvíþætt. Annars vegar snýr það að framkvæmdum þegar verið er að byggja nýtt eða breyta gömlu húsnæði. Á fundi með Mannvirkjastofnun í morgun kom fram að vandamálið liggur ekki í nýbyggingum heldur í undanþágum til að breyta gömlu húsnæði. Í byggingarreglugerðum fyrir 1979 var ekki gert ráð fyrir auknu aðgengi, þar af leiðandi er ekki alls staðar gerð krafa um að eldri byggingar uppfylli allt í nýrri reglugerðum þrátt fyrir að um nýja starfsemi sé að ræða. Eftirlit með þessu er á hendi sveitarfélaga eða byggingarfulltrúa. Það gæti þurft að herða eða stýra þessu eftirliti en ekki aðeins skella ábyrgðinni á eiganda húsnæðis.

Hinn þátturinn er eftirlit með aðgengi sem er eftir að byggingar eru teknar í notkun, á rekstrartímanum. Það hefur komið fram að einstaklingar í hjólastólum hafa ekki komist inn á salerni eða í lyftur af því að þær hafa verið læstar. (Forseti hringir.) Að sjálfsögðu er þetta óboðlegt, við þurfum að skýra eftirlitsþáttinn betur og koma honum í almennilegt ferli.