144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

makrílfrumvarpið og auðlindaákvæði.

[10:45]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það felast gríðarleg verðmæti í aflaheimildum fyrir einstaklinga í þessu landi. Hæstv. ráðherra hefur hér grímulaust tekið upp varnir fyrir það kerfi sem við höfum búið við þar sem einstaklingum hefur verið sköpuð aðstaða til þess að hagnast á auðlindum þjóðarinnar langt umfram það sem eðlilegt getur talist, og án þess að þjóðin, sem á þessa auðlind, fái réttlátan hlut af þeim arði sem þar skapast. Þessi ríkisstjórn stendur vörð um það kerfi. Hún gerir ekki bara það heldur gefur hún hér í með þessu frumvarpi þar sem geirnegla á niður þetta kerfi og ef eitthvað er er hér verið að ganga enn lengra og skjóta styrkari stoðum undir það kerfi sem við höfum búið við.

Virðulegi forseti. Okkur í Samfylkingunni, okkur jafnaðarmönnum svíður það ranglæti sem býr að baki þessu kerfi. Við viljum skapa sátt um þessa mikilvægu atvinnugrein og það verður ekki gert með þeim hætti sem ríkisstjórnin leggur til með þessu frumvarpi. Það verður eingöngu gert með þeim hætti að þjóðin fái réttláta hlutdeild í þeim arði sem skapast af nýtingu auðlindarinnar. Það verður ekki gert öðruvísi en með því að skapaður verði einhvers konar markaður með þessar aflaheimildir.

Ég harma það að okkur hafi ekki tekist það á síðasta kjörtímabili að koma því í gegn hjá þeim sjávarútvegsráðherra sem þá var, en það stóð ekki á okkur í Samfylkingunni hvað það mál varðaði. En eins og menn vita var fyrrnefndur sjávarútvegsráðherra álíka hrifinn af markaðslausnum og ákveðnum alþjóðastofnunum sem óþarfi er að nefna í þessu samhengi.

Virðulegi forseti. Ég tel að hæstv. ráðherra þurfi að gefa okkur svar við því hvers vegna hann notar ekki tækifærið núna og reynir að (Forseti hringir.) að stíga skref til að skapa sátt frekar en að halda áfram (Forseti hringir.) á sundrungarbraut hvað þetta mál varðar.