144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

lagning sæstrengs til Evrópu.

[10:49]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Nú eru liðin tvö ár síðan ég kom fyrst á þing og byrjaði að spyrja hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra út í stöðuna á sæstreng. Eins og forseti og aðrir vita þá lá þegar fyrir mikil vinna frá síðustu ríkisstjórn við könnun á fýsileika þess að leggja sæstreng frá Íslandi til Bretlands. Bretar og aðrar Evrópuþjóðir þurfa auðvitað að skipta út óumhverfisvænum orkugjöfum sínum út fyrir græna orku og af henni eigum við Íslendingar nóg. Sú svokallaða stýranlega orka sem við ræðum í þessu samhengi, topparnir sem koma inn á landsnetið okkar, orkan sem kemur inn á nóttinni, þá orku notum við Íslendingar ekki neitt og verðmætin renna út í sandinn. Það er sú orka sem Bretar vilja kaupa.

Til þess að bæta við gleðina við þetta ágæta viðskiptatækifæri, nýtingu á stýranlegri orku, er reiknað með að verð á orku sem seld er í gegnum sæstreng sé allt að sjö sinnum hærra en það verð sem við fáum frá stóriðjunni, sem er okkar stærsti orkukaupandi.

Virðulegi forseti. Í þessu samhengi erum við að ræða um tugi milljarða til viðbótar í ríkiskassann árlega. Tugi milljarða. Og það er ekki eins og það sé skortur á tækifærum til að nota þá peninga sem gætu komið af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Það vantar í ríkiskassann, það vantar að borga af skuldum, það vantar að byggja Landspítala, það vantar að standa við lífeyrisskuldbindingar, það vantar að finna út úr öllu því sem við ætlum bara annars að demba á börnin okkar.

Í þessu samhengi er boltinn hjá hæstv. ráðherra. Hún verður að fara í samningaviðræður við Breta. Ég hef spurt hana ítrekað úr þessum stól hvernig gangi. Atvinnuveganefnd beindi til hennar tilmælum fyrir einu og hálfu ári síðan. Ég hef (Forseti hringir.) spurt hana spurninga hér (Forseti hringir.) og spyr nú aftur sömu spurninga átta mánuðum síðar: Hvað hefur ráðherra átt marga fundi með (Forseti hringir.) breskum stjórnvöldum og hvar standa samningaviðræður við Breta um sæstreng?