144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

lagning sæstrengs til Evrópu.

[10:55]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég átta mig hreinlega ekki á málflutningi hv. þingmanns. Hér er um að ræða risastórt mál. Það sem ég held að ég og hv. þingmaður séum algjörlega sammála um er að við viljum gera það sem er best fyrir íslenska hagsmuni. Það er þess vegna sem við erum að kafa ofan í þetta mál frá öllum öngum þess, nákvæmlega í samræmi við álit atvinnuveganefndar sem hv. þingmaður á sæti í. Varðandi samningaviðræður við Breta þá ítreka ég og endurtek það sem ég sagði áðan og það er sama hversu oft hv. þingmaður heldur öðru fram: Við eigum í fyrirtakssamskiptum við bresk stjórnvöld. Við fáum frá þeim upplýsingar eins og þeir hafa boðið okkur. Það eru ekki formlegar samningaviðræður vegna þess að það er eitt og annað, ýmislegt sem þarf að liggja fyrir áður en við ákveðum að ganga til samninga. Þetta er ekki svona „kíkja-í-pakkann“-mál. Þetta er mál þar sem við þurfum að hafa fast land undir fótum (Forseti hringir.) og það snýst ekki bara um orku, einhverja afgangsorku, það þarf að sjálfsögðu að tryggja 700–1.200 megavött af orku (Forseti hringir.) með einhverju öðru en einungis umframorku. Þetta eru (Forseti hringir.) þau atriði, virðulegur forseti, sem við munum kanna og erum að því, ég fullvissa hv. þingmann um það.