144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

fjarskiptamál.

[11:11]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir þetta tækifæri að fá að hefja sérstaka umræðu við hæstv. innanríkisráðherra um viðhorf hennar til úrbóta á fjarskiptainnviðum og hvernig við getum aukið aðgengi allra að internetinu með nútímalegum og traustum tengingum og hvernig við getum jafnað tækifæri fólks til að nota og eiga rafræn samskipti, óháð búsetu, hvar sem er á landinu.

Ég vil í upphafi umræðunnar taka skýrt fram að almennt má segja um ástand fjarskiptamála hér á landi að það sé í þokkalega góðu lagi. Útbreiðsla fjarskipta er mjög góð. Það er ekki sjálfgefið og ekki einfalt úrlausnarefni í okkar landi þar sem við erum fámenn þjóð, með fjöll og dali. Notkun á netinu er bæði almenn og góð meðal þjóðarinnar og það er ríkt í okkar daglega lífi. Við nútímafólk getum varla án þess verið og langflestir, samkvæmt tölulegum staðreyndum, hafa tileinkað sér notkun á því og erum við meðal fremstu þjóða í þeim efnum. Enginn efast um gildi góðra og öruggra fjarskipta fyrir daglegt líf okkar. Öflugar nettengingar, þörf fyrir þær og mikilvægi þeirra er því stórt viðfangsefni út frá öryggi fjarskipta, út frá byggðamálum, út frá rekstri fyrirtækja og heimilishaldi. Útbreiðsla góðra nettenginga er því ein af meginforsendum um ákvörðun búsetu og úrslitaatriði um þróun byggðar. Góðar nettengingar eru fyrirtækjum ekki síður mikilvægar og samkeppnishæfni svæða og íbúðabyggða má því, ásamt öðrum grunnþáttum, mæla út frá ástandi fjarskipta.

Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna að marka stefnu og veita aðhald, vera á sama tíma hvetjandi til átaka um leið og við gerum kröfu um og mótum framtíðarsýn. Almennt er ekki gert ráð fyrir því að hið opinbera stígi inn á hinn frjálsa samkeppnismarkað fjarskipta. Það er mjög flókið fyrir ríki og sveitarfélög að láta sig málefni fjarskiptamarkaðarins varða og við erum bundin þar á klafa mikils regluverks og laga. Neytendum skulu tryggð ákveðin réttindi og stjórnvöld eiga líka að veita markaðnum aðhald.

Í samræmi við núgildandi fjarskiptaáætlun skipaði fyrrverandi hæstv. innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, starfshóp um alþjónustu og yfirferð á regluverki alþjónustu og ekki síður átti hópurinn að koma með tillögur til úrbóta í fjarskiptamálum. Í hópinn voru skipaðir fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, ráðuneyti byggðamála og frá ríkisstjórn og sá sem hér stendur, sem var formaður hópsins, var fulltrúi innanríkisráðherra. Hópurinn hefur nú skilað innanríkisráðherra skýrslu og ákveðnum tillögum. Tillögum okkar má í meginatriðum skipta í tvo meginþætti. Annars vegar eru tillögur sem snúa að breytingum á lögum og reglum um fjarskiptamarkaðinn og hins vegar tillögur sem eru undirstöður landsátaks í uppbyggingu fjarskiptainnviða og miða að því að öll heimili og fyrirtæki eigi kost á raunverulegum, góðum og traustum háhraðafjarskiptatengingum.

Herra forseti. Ef ég leyfi mér að rekja í sem stystu máli helstu tillögur okkar hóps má segja að fyrsta megintillaga okkar snúist um að skilgreina aðgang að breiðbandi eða fjarskiptatengingu með að minnsta kosti 100 megabæta tengihraða sem grunnþjónustu sem standi öllum landsmönnum til boða, óháð búsetu. Þetta er mjög stór ákvörðun og í raun og veru grundvallarákvörðun um það hvernig við getum sem þjóð undirbyggt stórkostlegar framfarir í uppbyggingu fjarskipta. Við viljum í annarri tillögu okkar setja það sem alþjónustumarkmið að tengihraði verði að minnsta kosti 100 megabæt og verði aðgengilegur 99,9% landsmanna árið 2020. Við leggjum til innleiðingu á reglugerðum og breytingum á lögum sem innleiða samnýtingu á veituframkvæmdum, en í þeim málum eru gríðarlega mikil sóknarfæri, bæði til að lækka kostnað við ljósleiðaralagnir og ná fyrr árangri. Við höfum líka metið og skilgreint átaksverkefni á landsvísu til fimm ára við uppbyggingu ljósleiðaraaðgangsneta á svæðum þar sem markaðsbrestur er til staðar. Við segjum landsátak vegna þess að þegar við höfum sett okkur þau markmið sem ég hef hér lýst þá snertir átakið öll sveitarfélög í landinu nema þau sem þegar hafa lagt út í ljósleiðaralagnir.

Ég vil því að þessu sögðu og að framkominni þessari skýrslu leggja fyrir hæstv. innanríkisráðherra eftirfarandi spurningar:

Hvert verður framhald á starfi ráðherrans í ljósi þessarar skýrslu?

Hvernig metur ráðherra ástand mála og þörf fyrir breytingar á regluverki?

Hvernig hyggst ráðherra taka næstu skref?

Hefur ráðherra tekið upp (Forseti hringir.) viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga? Í tillögum (Forseti hringir.) starfshópsins er sveitarfélögum í landinu ætlaður mjög stór verkþáttur í þessu landsátaki.