144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

fjarskiptamál.

[11:17]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu máli sem er auðvitað gríðarlega spennandi og mikilvægt fyrir landið í heild. Í mínum huga er öruggt netsamband við umheiminn ein forsenda þess að menn hafi raunverulegt frelsi til búsetu og uppbyggingar ýmiss konar atvinnustarfsemi. Verkefni þess starfshóps sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni sem fyrrum innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, skipaði árið 2014 um alþjónustu í fjarskiptum og útbreiðslu háhraðanettenginga var að koma með þær tillögur til úrbóta sem hv. þingmaður gerði hér að umtalsefni. Þessi vinna er á grundvelli stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar um að farið skuli í að efla fjarskiptakerfi í landinu til hagsbóta fyrir atvinnulíf og íbúa hér í landi.

Áform ríkisstjórnarinnar eru metnaðarfull og spennandi enda um að ræða, eins og ég segi, eitt stærsta atvinnu- og byggðamálið. Mikill stuðningur er við málið og eru næstu skref að útfæra það og koma því til framkvæmda.

Ísland stendur þó vel á sviði fjarskipta í samanburði við önnur lönd. Samkvæmt skýrslum Alþjóðaefnahagsráðsins er samkeppnishæfni Íslands á margan hátt góð. Þá stöðu má rekja til virkni á fjarskiptamarkaði en jafnframt til þess að stjórnvöld hafa gripið inn í þar sem þörf hefur krafist á grundvelli fjarskiptaáætlunar. Þó má alltaf gera betur.

Ein grunnforsenda fjarskiptaáætlunar er að fjarskipti séu þjónusta sem fyrirtæki á markaði bjóða í samkeppni hvert við annað. Fjarskiptaáætlun tekur mið af því hlutverki stjórnvalda að sjá til þess að skýrar leikreglur greiði fyrir einkaframtaki og um leið að skyldur fyrirtækja á markaði og réttindi neytenda séu skýr. Uppbygging fjarskipta er fyrst og fremst verkefni markaðarins og fellur undir fjarskiptalöggjöfina, samkeppnislög og aðra löggjöf um fyrirtækjarekstur.

Á síðasta ári fjárfestu markaðsaðilar á fjarskiptamarkaði fyrir tæpa 8 milljarða kr. sem er mun hærri fjárhæð en árin á undan. Fjárfestingarnar eru fyrst og fremst í þágu fyrirtækja og almennings á markaðssvæðum sem ná til yfir 96% fyrirtækja og almennings sem nýtur almennt góðrar þjónustu fyrir vikið. Hins vegar eru ekki alls staðar næg skilyrði fyrir uppbyggingu á markaðslegum forsendum. Þörf er fyrir aðkomu opinberra aðila til að tryggja góð og öflug fjarskipti fyrir þann hluta þjóðarinnar sem býr á þessum markaðsbrestssvæðum.

Þau úrræði sem opinberir aðilar hafa gegn þessum vanda eru til dæmis fjárframlög að uppfylltum ríkisstyrkjareglum og möguleg löggjöf. Helstu hindranirnar sem hér standa í veg fyrir uppbyggingu á háhraðanettengingum á markaðslegum forsendum eru landfræðilegar aðstæður og strjálbýli, en uppbygging á háhraðanettengingum er mun óhagkvæmari í dreifbýli en þéttbýli. Aftur á móti verður ekki fram hjá því litið að þörfin fyrir netið er alveg jafn rík ef ekki ríkari á þessum svæðum landsins til að rjúfa einangrun og tryggja öruggt fjarskiptasamband.

Ekki þarf að tíunda hér mikilvægi þess að landsmenn búi allir við öflugar og áreiðanlegar nettengingar. Gott aðgengi að netinu er mikilvægt skilyrði fyrir byggð og atvinnustarfsemi. Sífellt aukið framboð á opinberri þjónustu á netinu, menntun, upplýsingum og alls konar afþreyingu gerir það að ómissandi þætti í nútímasamfélagi. Sömuleiðis er netið undirstaða þess að fyrirtæki geti markaðssett sig og boðið vörur og þjónustu til sölu óháð staðsetningu.

Nú er unnið að nánari útfærslum á þessum tillögum í ráðuneytinu. Það eru ekki svo margar vikur síðan ráðuneytinu bárust þær í hendur. Þar eru lagðar til ýmiss konar breytingar á lögum og reglum, auk þess sem fjallað er um þrjár mögulegar leiðir fyrir aðkomu ríkisins að uppbyggingu fjarskipta á markaðsbrestssvæðum. Þessar þrjár leiðir gera allar ráð fyrir umtalsverðu en mismiklu fjárframlagi og ábyrgð ríkisins á uppbyggingu fjarskiptainnviða. Meiri hlutinn mælti með leið tvö sem gerir ráð fyrir að ríkið taki ábyrgð á uppbyggingu fjarskiptainnviða með aðkomu og samstarfi við sveitarfélög. Lagt er til að framlag ríkisins verði 900 millj. kr. í fimm ár. Framlag notenda verði 250 þúsund fyrir hverja nettengingu sem geti hugsanlega notið styrks frá sveitarfélagi sem taki þá hluta notendagjaldsins.

Við höfum í ráðuneytinu hitt Samband íslenskra sveitarfélaga til að fjalla um efni skýrslunnar og fengið mjög jákvæð viðbrögð þaðan. Við höfum einnig hitt fulltrúa fjarskiptafyrirtækjanna og heyrt sjónarmið þeirra og almennt má segja að menn séu spenntir fyrir verkefninu. Það er síðan verkefni okkar í ráðuneytinu að ýta þessum metnaðarfullu markmiðum í framkvæmd. Ef að líkum lætur munum við sjá þess merki í fjarskiptaáætlun sem ég hyggst leggja fyrir þingið í haust.