144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

fjarskiptamál.

[11:22]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli og þakka svör ráðherra svo langt sem þau ná. Það þarf auðvitað að sjá fjarskiptaáætlunina sem kemur í framhaldi af þessum tillögum.

Við erum að glíma við viðvarandi vanda þó að það sé rétt sem hér hefur komið fram að að mörgu leyti stöndum við vel. Þó eru ákveðin svæði á landinu utan við þá þjónustu sem við viljum hafa um allt land. Þetta stafar upphaflega frá því þegar Síminn var seldur, þá gleymdu menn eða vildu ekki og töldu ekki hægt að halda grunnnetinu utan við söluna og tryggja þannig að dreifikerfið yrði til staðar í landinu í sameign þjóðarinnar. Síðan yrði þjónustan í samkeppni á því neti. Þá voru skilgreind markaðssvæði og síðan stofnaður fjarskiptasjóður til að bæta upp á þeim svæðum þar sem markaðurinn mundi ekki ráða við þjónustuna. Reyndin varð sú að vandræðin urðu hvað mest þar sem hafði verið skilgreint markaðssvæði og menn réðu svo ekki við það. Það hafði hins vegar verið búið ágætlega að þeim sem voru undir fjarskiptasjóði. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að við vöndum okkur við það núna að ná utan um þetta og vísum þessu ekki alveg yfir á markaðinn eins og hæstv. ráðherra gerði hér, heldur reynum að tryggja það sem er aðalmarkmiðið, að það verði alþjónusta í sambandi við nettengingar um allt land.

Samfylkingin lagði á haustþinginu fram þingsályktunartillögu um bráðaaðgerðir í byggðamálum. Þar er einmitt áskorun til innanríkisráðherra um að leggja fram tímasetta og kostnaðargreinda áætlun um uppbyggingu háhraðatenginga og hringtengingu ljósleiðara um land allt. Við styðjum að sjálfsögðu alla þá viðleitni sem hér kemur fram til að tryggja jafnræði á milli svæða og byggða í þessu landi og tryggja að allir hafi jafnan aðgang að háhraðanettengingum. Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir heimilin í landinu, fyrir búsetuskilyrði og fyrir atvinnulífið á öllu landinu og þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra til dáða varðandi framhaldið.