144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

fjarskiptamál.

[11:24]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Uppbygging háhraðatenginga úti um land getur ekki eingöngu verið á markaðslegum forsendum. Þannig er það nú bara og þess vegna þarf ríkið að koma myndarlega inn í fjarskiptasjóð til að bæta þar úr. Þetta er mikið byggða- og atvinnumál eins og hér hefur komið fram. Þetta skiptir máli varðandi menntun, heilbrigðismál, viðskipti og svo ótal margt annað og unga fólkið vítt og breitt um landið segir þegar við þingmenn komum í heimsóknir út á land að þetta sé eitt af grundvallaratriðum svo það hafi hug á því að festa búsetu til framtíðar úti á landi. Við megum ekki draga lappirnar í því mikilvæga byggðamáli sem þarna er á ferðinni.

Ég lagði ásamt fleiri þingmönnum fram tillögu til þingsályktunar á síðasta þingi um að flýta háhraðatengingu í dreifbýli og að henni yrði lokið á næstu fjórum árum. Nú hefur sá starfshópur sem hér hefur verið getið um skilað frá sér tillögum og mér finnst mjög mikilvægt að þess sjái stað í þeirri fjarskiptaáætlun sem hæstv. ráðherra leggur fram í haust að myndarlega sé tekið á þessu máli.

Ég er ekkert allt of bjartsýn á að það verði. Ríkisfjármálaáætlun til fjögurra ára sem rædd var hér á dögunum gerir ekki ráð fyrir miklum fjármunum í samgöngur, fjarskipti eða aðra uppbyggingu. Þetta er undir þessari ríkisstjórn komið og dugar ekki að tala fjálglega um þessi mál ef engin meining er á bak við.

Hv. þm. Haraldur Benediktsson sagði í ágætri grein, með leyfi forseta:

„Það er framkvæmdakraftur í stefnu stjórnarflokkanna í þessu mikla framfaramáli“ sem snertir marga þætti. Það er (Forseti hringir.) vonandi að þau orð hans skili sér þá í fjárlögum og fjarskiptaáætlun hæstv. ráðherra.