144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

fjarskiptamál.

[11:48]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Auðvitað kemur ekki á óvart að menn séu sammála um að brýnt sé að ná árangri á fjarskiptasviðinu. Ég hef verið þeirrar skoðunar um langan tíma að þetta sé eitt mikilvægasta frelsismál sem við stöndum frammi fyrir sem íbúar í þessu landi, að geta ráðið því sjálf hvar við búum. Það er rétt sem hér hefur komið fram, við erum ekki bara að tala um byggðir fjarri höfuðborgarsvæðinu, það eru markaðsbrestir í nágrenni okkar líka. Ég hygg að við séum öll sammála um þetta og nú þurfum við bara að leita leiða til að leiða málið áfram. Það er á forræði mínu, a.m.k. í bili, að vinna úr þeim tillögum sem hér koma fram og síðan mun þeirra sjá stað í þinginu.

Ég tek undir það sem hv. þm. Haraldur Benediktsson sagði þegar hann stal af mér orðinu í lokaræðu sinni þar sem ég ætlaði að tala um samlegðaráhrif út af veituframkvæmdum. Það er mjög mikilvægt. Við þurfum að fara í veituframkvæmdir víða um land og það er náttúrlega alveg ómögulegt að verið sé að grafa skurði hlið við hlið og auka stórkostlega kostnað þegar hægt er að ná miklum samlegðaráhrifum og nýta þær brautir til að leggja fjarskiptakapla um leið. Við þurfum að líta á þessi kerfi öll heildstætt. Við þurfum að líta á vegina, rafmagnið og fjarskiptin, þetta er allt saman orðið hluti af grunnþjónustu. Það er enginn lengur að tala um að þetta sé neinn lúxus. Verkefnið núna er að koma því áfram.

Ég veit að allir eru óþolinmóðir og menn hafa verið óþolinmóðir í langan tíma. Auðvitað snýst þetta allt um fjármagn. Tillagan hér er sú að ríkið komi myndarlega að málum og það er það verkefni sem blasir við fram undan.