144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[13:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þætti það kraftaverki líkast ef okkur tækist að fara í gegnum öll álitamál á yfirstandandi þingi, ég verð að segja eins og er. Að því sögðu er þetta mál sem er alveg þess virði að skoða mikið á þeim tíma sem við þó höfum og reyna að finna út úr því hvernig hægt sé að gera þetta sem best og ef ekki best þá alla vega skást.

Hvað varðar hvernig frumvörpin geta haft áhrif á þá þróun sem á sér stað í viðskiptamódelum í hugverkabrönsum almennt óttast ég það mest við frumvörpin, og sérstaklega mál nr. 702, að þau breyti fyrirkomulaginu á þann hátt að minni reynsla verði af því hvernig hlutirnir virka eins og er og farið verði að reyna að gera nýja hluti á meðan aðrar lagabreytingar eiga sér stað, ýmist í Evrópu, í umræðunni hér eða hvað eina. Mér finnst því rosalega óþægilegt að vera að reyna að gera þessar breytingar hér og nú. Mér finnst það afskaplega slæm tímasetning.

Þegar kemur að því að leyfa þessum viðskiptamódelum að þróast er tvennt sem við þurfum að gera. Annars vegar þurfum við að hemja okkur í því að reyna að halda í gömlu módelin. Við verðum að leyfa nýju viðskiptamódelunum aðeins að finna sig í því umhverfi sem er til staðar núna. Ef við hrærum mikið í því getum við óvart stofnað í hættu nýjum viðskiptamódelum sem byggja á tiltekinni aldagamalli túlkun á því fyrirkomulagi sem er til staðar akkúrat núna.

Hitt sem við verðum að gera er að átta okkur á því hvernig við getum breytt lögunum til þess að búa betur um viðskiptamódelin, t.d. Netflix, Spotify og YouTube o.fl. Dæmi um afskaplega snjallt viðskiptamódel er YouTube, eða öllu heldur ef lögin væru þannig að hver sem er mætti setja höfundaréttarvarið efni á YouTube, sama hvað höfundinum finnst, en YouTube væri hins vegar skyldugt til þess að greiða ákveðna prósentu af auglýsingatekjum. Það eru svona módel í gangi, en það er byggt á þeirri forsendu að menn eigi í raun og veru ekki að setja þetta upp til að byrja með. Það byggir í (Forseti hringir.) raun á því, sem er slæmt. Það er alltaf ákveðin skekkja í lögum um það. Það eru svona vandamál sem við eigum að vera að einbeita okkur að, að mínu mati.