144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[14:30]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka bæði spurninguna og hugleiðinguna sem ég held að sé mjög mikilvæg og sé algerlega málið. Þið hafið náttúrlega verið lánsöm að hafa hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson í nefndinni sem mun örugglega ausa af sínum viskubrunni í þessum málaflokki, en það er líka hægt að finna mikið af upplýsingum á internetinu og ég er alveg til í að taka saman smálista yfir það. Ég fann frábær viðtöl við þá listamenn sem ég var að nafngreina, Neil Gaiman, Cory Doctorow og fleiri sem eru listamenn sem hafa beitt sér fyrir úrbótum á höfundarétti. Það þótti til tíðinda að Paulo Coelho, sem skrifaði Alkemistann og er þekktur hér á landi, var á tímabili andlit Pirate Bay, hann studdi Pirate Bay því að hann skildi mikilvægi þess að það væri til einhver staður þar sem gögnum væri deilt, og þetta eru ekki bara bíómyndir. Þarna get ég fundið alls konar gögn sem hafa verið sett þannig upp að ég get náð í þau þegar mig langar á einum stað og leitað í gríðarlega stórum gagnagrunni. Svo finnur maður oft mjög góðar heimildarmyndir sem eru í hinu svokallaða „public domain“ eða fyrir almenning. Varðandi lagasetningu þá hef ég verið svo lánsöm að hafa haft tækifæri til að hitta erlenda þingmenn til að ræða við þá um stöðuna í þeim efnum og sér í lagi það sem snýr að friðhelgi og upplýsingaréttinum í hinum stafrænu heimum og hef einnig verið á ráðstefnum um höfundarétt, svokallaðar „copyright camps“ o.s.frv. Það er þorsti hjá fólki og það verða örugglega skapaðir fleiri vettvangar til að fræða þingmenn um hvað er að gerast og hvað þeir þurfa að vera meðvitaðir um til að geta tekið, hvað lagasetningu varðar, á móti hinum nýju tímum.