144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[15:22]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel heilmikið til í því sem hv. þingmaður hefur nefnt, þetta er kannski meira orðið spurning um skiptinguna á milli milliliðanna annars vegar og þeirra sem dreifa og síðan listamannanna sjálfra. Það er gamalt vandamál sem við þekkjum, togið á milli útgefendanna í gamla kerfinu og listamannanna sjálfra. Það er orðið þekkt stef og alveg viðbúið að það héldi áfram. Það er vegna þess, eins og ég nefndi áðan, að þótt hin nýja tækni gefi mönnum tækifæri, sérstaklega þeim sem eru að byrja, til að komast fram hjá því að komast á samninga og geta dreift tónlist sinni og vakið athygli á sér, ef við tökum tónlistina aftur sem dæmi, eru því aftur á móti takmörk sett hvað menn geta gert sjálfir, bæði vegna þekkingar sinnar og vegna þess hvernig sá heimur er uppbyggður. Það er því líklegt að það séu einmitt þeir sem safna þessu saman, eins og Spotify og aðrir, sem fá og ná ansi miklum völdum og komi þá í staðinn fyrir hin hefðbundnu útgáfufyrirtæki. Það er sjálfsagt mál þótt það sé kannski aðeins annað en það sem við erum að fjalla um hérna, en það er sjálfsagt að hafa augun á þeirri þróun.

Mér finnst aðalatriðið í þessu, og það sem mér finnst ég heyra í umræðunni, að það er alveg og á alveg að vera hægt að finna einhvers konar meðalveg eða línu á milli annars vegar hinna borgaralegu réttinda, þ.e. réttindanna um einkalífið og annað slíkt, tjáningarfrelsið, og hins vegar að gera það sem nauðsynlegt er að gera til að tryggja að höfundarétturinn sé virkur með einhverjum leiðum, þótt það sé ekkert endilega með sömu leið og alltaf hefur verið, en að hann sé virkur þannig að listamennirnir, eigendur slíks efnis, fái sanngjarna greiðslu fyrir vinnu sína. Við viljum að það sé svoleiðis, það á að vera svoleiðis og er alveg nauðsynlegt, vegna þess að ef svo er ekki má ætla að það dragi úr slíku.

Ég vonast til að tvennt gerist með þessum frumvörpum. Annars vegar er það að aukin umræða verði um þetta mikilvæga mál. Mér finnst umræðan hérna hafa verið ágæt hvað það varðar án þess að ég ætli að gefa umræðum í þinginu einkunn, en hún hefur alla vega verið mjög gagnleg fyrir mig. Auk þess vonast ég til að þessi mál verði kláruð sem fyrst, þó aðeins á þeim hraða sem þingið ætlar sér. En ég vek athygli á því að eitt af málunum er innleiðing á tilskipun frá ESB sem við erum komin fram yfir (Forseti hringir.) dagsetningar á og er eitthvað sem þarf að hafa í huga þegar er verið að ræða þetta.