144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[15:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég held að hún hafi skilað okkur heilmiklu til glöggvunar á þeim feikilega flóknu og um leið mikilvægu efnisþáttum sem hér eru til umræðu. Þeir eru mikilvægir fyrir margra hluta sakir. Þeir eru mikilvægir vegna lýðræðisþróunar í landinu, þeir eru mikilvægir vegna efnahagsþróunar almennt og þeir eru sérstaklega mikilvægir hvað varðar listsköpun og þá þætti sem að þeim málum lúta. Það er því margt hér undir og ástæða fyrir okkur að vanda okkur og glöggva okkur sem flest á þessu viðfangsefni.

Ég ítreka að þau frumvörp sem eru nú til umræðu taka á afmörkuðum þáttum þeirra mála sem við ræðum, en um leið er mikilvægt að hafa í huga að þau tengjast þeim og eru hluti af stóru myndinni og eru þess vegna mikilvæg hvað varðar að gera ekki neitt sem við stöndum síðan uppi með, eins og bent var á í umræðunni, og erum föst með eitthvert fyrirkomulag sem tekur langan tíma að breyta og miklir hagsmunir eru orðnir tengdir við o.s.frv. Það er verkefnið sem við stöndum frammi fyrir.

Ég ítreka þessa skoðun mína hér. Ég tel að það sé til leið, millivegur í þessu máli þar sem hægt er að horfa til þeirra sjónarmiða sem hér hafa verið nefnd. Annars vegar um persónuvernd, réttarverndina, og hins vegar þá nauðsynlegu og skiljanlegu kröfu af hálfu þeirra sem eiga höfundaréttarvarið efni að menn fái sanngjarna greiðslu fyrir sitt efni. Það er ein af frumforsendum þess að efni verði til. Þetta verður að leika saman með skynsamlegum og eðlilegum hætti.

Við sjáum að markaðurinn, margumtalaði, virkar eins og við getum treyst að hann geri. Milljónir manna um allan heim leita á hverjum degi lausna á þessu því að það er svo mikið undir og mikil verðmæti sem felast í því að finna lausnirnar í opnu markaðshagkerfi og opnum tæknikerfum. Lausnirnar munu koma. Ég er algjörlega sannfærður um það. Við erum farin að sjá glitta í þessar lausnir. Við erum líka farin að sjá grundvallarbreytingar á ýmsu í hagkerfum okkur þar sem lausnir sem eru sérstaklega hugsaðar út frá þessum aðstæðum nýtast á svo mörgum sviðum þar sem hefðbundin viðskiptamódel bakka eða tapa í samkeppninni. Hér hafa einmitt verið rædd módel sem eru alþekkt og snúa t.d. að leigubílaakstri og öðru slíku.

Það er augljóst að þetta tekur tíma. Þetta sprettur ekki upp á einum degi. Ég hef áhyggjur af því sem snýr að íslenskum listamönnum. Ég hef tiltekið alveg sérstaklega tónlistina. Það hefur orðið verulegur samdráttur á síðustu tveimur árum eða svo í útgáfu á íslenskri tónlist, m.a. á efni sem er sungið á íslensku. Ég tel að það geti haft alvarlegar afleiðingar ef líður mjög langur tími þar sem þessi staða er uppi. Við erum núna einmitt að upplifa alveg glæsilega sókn íslenskra listamanna, sérstaklega tónlistarmanna, á erlendum vettvangi. Það varð ekki bara allt í einu til á síðustu tveimur, þremur, fjórum árum. Það er afsprengi þróunar sem hefur staðið yfir um langa hríð. Ég nefndi hér áðan að það stafaði allt frá þeim tíma sem tekin var ákvörðun um uppbyggingu tónlistarskólakerfisins. Það er hættulegt ef það kemur eitthvert rof í þetta, ef það dettur niður af því að þetta er viðkvæm þróun og hún er ekki sjálfgefin. Það er langt því frá sjálfgefið að íslenskir tónlistarmenn veki eins mikla athygli erlendis og þeir gera. Það þarf svo margt að koma til til þess að það gerist. Þess vegna hef ég ákveðnar áhyggjur, ég játa það, hvað varðar þennan tíma vegna þess að ef það líður of langur tími og ef aðstæður verða of erfiðar þá getur það leitt til þess að þetta detti niður, að það komi ekki næstu hópar og næstu kynslóðir. Kannski gengur þetta hraðar fyrir sig en ég óttast. Það er nauðsynlegt að hafa trú á því að markaðurinn leysi þetta því að það er langlíklegasta lausnin. Aðrar lausnir eru ekki líklegri. Það að láta sér detta í hug að ríkið komi og búi til viðskiptamódel er mjög vond hugmynd.

Ríkið getur í það minnsta í gegnum lagasetningu reynt að gera þó það sem við erum að gera núna, sem er ekki einhver heildarendurskoðun á þessu eða stórkostlegar stefnubreytingar heldur að skýra og skerpa á ákveðnum þáttum, reyna að leysa ákveðin vandamál sem við sjáum og eru augljós eins og að koma menningararfinum á stafrænt form sem er einn þátturinn í því sem við erum að ræða hér og það sem snýr að samningsskyldum eða þeim þætti þó að það sé ekki einhlítt eða einfalt mál, það eru ýmis atriði sem þarf að hafa þar í huga. En ég held að það sé til bóta að reyna að auðvelda til dæmis þeim sem eru að miðla efni að flytja efni sem er orðið gamalt þannig að það sé ekki ókljúfanlegt verkefni að þurfa að leita samþykkis allra sem komu þar að fyrir margt löngu, að það séu svona möguleikar á því að auðvelda aðgengi almennings að slíku efni. Það er líka til þess fallið að auka virkni á markaði að slíkt sé til staðar svo að efni sem enginn hefur aðgang að sitji ekki fast. Það væri mjög gaman fyrir okkur að geta fengið aðgang að þannig efni án þess að einhver óvissa og vandamál séu í löggjöfinni. Það eru slíkir þættir sem hér um ræðir.

Ég vil líka vekja athygli á, af því við erum að ræða um réttarríkið og mikilvægi þess að einkalíf manna sé varðveitt en reglur réttarríkisins gefi ekki eftir, þá er í þessu frumvarpi, eða einu þeirra, það nýmæli að haft sé samband við milliliðinn sem veitir þjónustuna sem stendur til að loka hjá, ef uppi er sú staða, þannig að það sé tryggt að viðkomandi geti varið sig. Það er algjört lykilatriði í réttarríki að það sé gert, að það sé ekki bara fyrir fram sagt: Hér er á ferðinni glæpamaður! — og síðan tekin ákvörðun um refsinguna. Þannig að það sé skylda að stjórnvald hafi samband og kalli eftir sjónarmiðum.

Ég vil ítreka annað sem ég hef sagt bæði í þessari umræðu og áður: Ég er þeirrar skoðunar að til þess að þetta gangi vel og við náum að samþætta þau sjónarmið sem hér er um að ræða, annars vegar borgaralegu réttindi og hins vegar mikilvægi þess að eignarrétturinn sé varinn sem er hluti af hinum borgaralegu réttindum, verður að horfa á þetta sem eina heild. Þá er skynsamlegt þegar kemur að því að grípa til einhverra úrræða að fara dómstólaleiðina frekar en í gegnum embættismenn. Það er eðlilegra og öruggara fyrir okkur að fara þá leið, en hún þarf auðvitað að vera sæmilega skilvirk án þess að gefið sé neitt eftir í því hvernig ákvarðanirnar eru teknar, þær verða að vera teknar með eðlilegum hætti af hálfu dómstólanna þannig að það sé ekki eitthvert sjálfsafgreiðsluapparat heldur sé farið með eðlilegum hætti með slíkt til dómstólanna og það sé hægt að afgreiða það tiltölulega hratt.

Ég ítreka þakkir mínar fyrir þessa umræðu. Mér þykir leitt að það kom upp sú staða í þinginu að ósætti voru um að taka þessi þrjú mál saman. Mitt mat var að þau væru nægjanlega lík til þess að ég legði það til. Ég ítreka að ég er þeirrar skoðunar að forseti hafi haft fullt vald til þess að taka slíka ákvörðun. Það fer samt betur á því að gott samþykki sé um það ef upp kemur ágreiningur, en ég vonast samt sem áður til þess að þeir þingmenn sem hafa verið við þessa umræðu telji að af henni hafi verið nokkuð gagn hér í dag þó að hún hafi verið með þessum formerkjum.